Bloggiti Blogg
Já, ég held það nú. Fyrsta bloggið loksins staðreynd. Ég var búinn að lofa því að halda uppi bloggi á meðan ég væri úti Danmörku og þetta er (aum) tilraun til þess að efna það loforð.
Það er kannski rétt að ég byrji á stuttum útdrætti um dvöl mín hérna hingað til. Þetta blogg er kannski full langt vegna þess að margt hefur gerst á þessum tíma.
Byrjum á byrjuninni. Ég lenti í Kaupmannahöfn þann 29. ágúst. Þar sem ég átti ekki að fá íbúðina mína 15. september sem síðar breyttist í 20. var ég húsnæðislaus í byrjun. Fyrstu 3 vikurnar dvaldi ég á heimili þeirra Odds og Kristínar og á ég þeim mikið að þakka fyrir þann greiða. Þau eru alveg æðisleg.
Ég skrapp í heimsókn til Odense til hennar Hildar Gísla. En Óðinsvéj eins og bærinn heitir á íslensku og þýðir í raun hin helgu véj Óðins, en þetta bæjarnafn er eitt að fáum sem er kennt við Óðin sem þó er talinn hafa verið æðstur hinna gömlu heiðna guða. Hefur þetta löngum verið smá hausverkur þeirra sem hafa rannsakað hinn gömlu skandinavísku trúarbrögð. Smá útúrsnúningur, en áfram með smjörið. Ég var þar eina helgi og skemmti mér vel og fór meðal annars í danskt afmæli hjá bekkjarbróður Hildar og skoðaði bæjarlífið í Odense. Enduðum við seinna kvöldið á harðasta þema skemmtistað sem ég hef komið á. En þemað var strandpartý og á þessum stað var til dæmis alvöru sandur, stórt fiskabúr, sæti hönnuð sem strákofar og hálfur hraðbátur var út á miðju gólfi en hraðbáturinn þjónaði þeim tilgangi að vera aðstaða plötusnúðarins.
Stebbi Orri kom í heimsókn til mín í eina viku september, nánar tiltekið frá 18-25. En ég fékk einmitt íbúðina afhenta þann 20. Það var mjög gaman hjá okkur vinunum. Við versluðum, borðuðum góðan mat, fífluðumst, drukkum og nutum íbúðarinnar. Foreldrar hans Stebba voru á sama tíma stödd hér í Köben og buðu okkur út að borða með sér. Vil ég hér með þakka fyrir það boð. Hann skrapp í heimsókn til Hildar Gísla á fimmtudeginum og tók hana svo með til höfuðstaðarins. Þar skemmtum við okkur þrjú um helgina. Stebbi kom með það markmið að versla hérna úti. En við vöknuðum upp við illan draum á mánudeginum, brottfaradag hans, þegar hann var ekki búinn að versla eitt né neitt. En það góða við vera strákur er það að maður getur bara hoppað niður í bæ og klárað svona smámuni á tveimur tímum sem og við gerðum. Stebbi fór held ég bara sáttur heim.
Eiríka móðursystir mín og Dói maðurinn hennar stöldruðu einnig við eina helgi í Kaupmannahöfn í september mánuði. Þau voru það góð að bjóða mér út að borða og nutum við góðrar kvöldstundar við kóngsins Nýtorg og borðuðum flottan mat.
Síðasti gesturinn til að heimsækja mig á þessum tíma mínum hér úti var hann pabbi. Áttum við feðgar góða helgi. Hápunktur var maturinn á laugardagskvöldið en hann var geggjaður. Pabbi kom nefnilega með íslenskt lambalæri sem við elduðum og borðuðum heima hjá Hallgrími og Ástu, en Hallgrímur er sonur Arngríms og Önnu sem eru vinahjón mömmu og pabba.
Svo er ég líka búinn að vera að hanga með Pétri Má úr Gróttunni. En sumir þekkja hann kannski betur sem litla bróður Siggu af nesinu. Hann er hérna í skóla og æfa með Brondby. Hann er búinn að kíkja nokkrum sinnum í heimsókn og taka gott tjill hérna. Einnig hef ég verið hanga með Pétri Einars. Hafa þeir Pésar stytt mér stundirnar hérna úti.
Oddur plataði mig í að ganga í fótboltafélag hérna úti sem er skipað íslenskum strákum. Liðið heitir FC Guðrún og spilar í utandeildinni hérna úti. Ég var ekkert búinn að spila í 6 mánuði áður en ég kom út svo fótboltaformið var ekki upp á það besta. Auk þess að getan hefur minnkað mikið sökum meiðslanna. Ég var samt búinn að gleyma hversu rosalega gaman mér finnst að spila fótbolta. Strákarnir í liðinu eru líka algjörir snillingar. Ég er búinn að spila um það bil 6 leiki með liðinu og þeir hafa farið á alla vegu. Eina slæma við fótboltann er að fóturinn minn er aftur kominn í algjört hönk og býst ég ekki við að spila lokaleik tímabilins.
Ég fór í Tívolíið með Oddi og Kristínu og vinapari þeirra sem ég er búinn að kynnast hérna úti Hödda og Önnu Láru. Ég fæ oftast að fljóta með þeim. Er þá fimmta hjól eða bara litla barnið. En tívolíferðin var alger snilld og prófaði ég meðal annars Himmelbjerget sem er nýjast tæki þeirra Dana og það eina sem ég átti eftir að prófa. En maður er hífður upp í 80 metra í litlum stólum og svo snúið í hringi. Alveg ágætis tæki. Svo var Tívolíferðin fullkomnuð með heimsókn í fallturninn sem hræðir mann alltaf jafn vel.
Skólinn er nú kominn á fullt en hann var frekar lengi í gang. Ég er í þremur kúrsum: Einn heitir Danish Culture og fjallar um, eins og nafnið gefur til kynna, danska menningu og er kúrs sem boðinn er upp á fyrir skiptinema. Annar heitir Nordisk Mythology og er um gömlu heiðnu trúarbrögðin. Sá þriðji heitir Between Cross and Crescent: Spain the Middle Ages og fjallar um innrás Múslima á Íberíuskagann 711 og hvernig þeir misstu hann aftur 500 árum seinna. Allt áhugaverðir kúrsir. Þeir eru þó einungis kenndir einu sinni í viku og þar af eru tveir á sama degi sem þýðir að ég sé í tvo daga á viku í skólanum sem er frekar lítið og óvenjulegt, ég er samt ekkert að kvarta.
Nú er flest það mikilvægasta sem búið er að gerast hérna úti komið fram. Ég þakka þeim sem komust í gegnum allan þennan texta og lofa þeim að ég skal byrja skrifa reglulega núna svo þetta verði ekki bara eintómar ritgerðir hjá mér.
Ég vil enda þetta blogg, sem markar upphafsskref mín í þessum bloggheimi, með að tileinka það Robba sem hefur ávallt kvatt mig til að byrja að blogga, Tinnu fyrir áskorunina, Hildi Sigurðar fyrir þolinmæðina og svo auðvita öllum sem lesa þetta. Einnig bið ég Orra vin minn afsökunar fyrir að hafa byrjað að blogga, ég veit hversu mikið hann hatar þetta fyrirbæri en ég mun aldrei neyða hann til að lesa þetta.
Einnig vil ég biðja þá sem lesa þetta að kommenta svo ég get séð hverjir eru að lesa þetta.
Kveðja frá Kaupmannahöfn
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim