föstudagur, nóvember 03, 2006

15 mínútur af frægð

Í fyrsta Danish Culture tímanum mínum var verið að fræða okkur um bókmenntaarf Dana. Kennarinn fræddi 150 námsþyrsta nemendur um víkingana á Íslandi sem skrifuðu niður sögur sínar og trúabrögð. Hann nauðgar íslenskri tungu með að telja upp verk Snorra Sturlusonar (þó ekki íþróttafréttamannsins), Eddukvæðin og Íslendingasögurnar með hræðilegum dönskum hreim. Með hjálp nútímatækni blastar hann einu Eddukvæði upp á töflu. Síðan snýr hann sér að bekknum sposkur á svip og spyr eftir Íslending í hópnum. Ég lít vandræðilega í kringum mig í von um að sjá einhverjar hendur á lofti. Miðað við fjölda Íslendinga sem stunda nám í Kaupmannahöfn býst ég allavega við að sjá nokkrar hendur fara á loft en ekkert gerist. Að lokum rétti ég mína upp. Spyr kennarinn þá hvort ég vilji ekki heiðra bekkinn með því að lesa upp ljóðið, það væri bara ekki það sama ef hann mundi flytja það. Ég virði fyrir mig ljóðið sem lítur illskiljanlega út og meikar ekki mikið sens í fljótu bragði. Með 300 augu á þér og pressu frá kennaranum er frekar erfitt að segja bara pent nei og setjast niður. Svo ég tók eina sekúndu í að undirbúa mig og fer svo með ljóðið. Eftir flutinginn mátti heyra saumnál detta í salnum. Ég lít í kringum mig og þá annað hvort starir fólk á mig eða bendir, ef ekki bæði. Síðan brjótast út þessi líka fagnaðarlæti sem eiga bara heima eftir ótrúleg væmið atriði í lélegri Hollywood mynd. Svo hélt tíminn áfram.

En ég á eftir að muna eftir þessu ótrúlega fyndna og súrrelíska mómenti í nokkurn tíma. Og nú þegar ég kynni mig fyrir einhverjum sem er með mér í þessum tíma og segist vera frá Íslandi er alltaf spurt hvort ég sé gaurinn sem fór með ljóðið, og svo er ég beðinn um að segja eitthvað á íslensku.

Þessi smásaga úr mínu lífi er í boði föstudagsins 3. nóvembers. Góða helgi.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim