mánudagur, febrúar 12, 2007

Bloggleysi

Afsakið þetta bloggleysi. Ég hef einhvern ekki náð að koma mér í það að sitjast niður og pikka inn eitthvað sannleikskorn um mitt líf. Það er svo langt síðan að ég bloggaði að Ísland var enn í séns í HM þá. Ekki það að ég vilji rifja upp helvítis danaleikinn aftur. Við fórum niður á barinn til þess að drekka sorgum okkar það kvöld. Það var ekki hægt. “Vi er hvide, vi er røde” var spilað oft í gegn það kvöld. Okkur, skiljanlega, til mikils ama. Ef maður hefði ekki verið búinn að fjárfesta í bjór þá hefði maður gengið út og mótmælt. Elska ég bjór meira en mitt eigið þjóðarstolt?

Þar síðustu helgi hélt Pétur Már upp á afmælið sitt með litlu spilakveldi í Rødovre. Þangað var farið og skemmt sér í póker. Komst í bæði skiptin í úrslitin en tapaði þeim báðum, ég vil samt trúa að þetta fari batnandi. Við tókum S-tog á leiðinni heim um hálf-eitt. Á leiðinni koma tveir gaurar inn og setjast á básinn við hliðiná okkur. Þeir geta ekki hafa verið eldri en 18 ára. Þeir taka upp 100 krónu seðill, krítarkort og hvítt efni. Svo sjúga þeir í nös. Ég tel það góðan hlut að mér hafi brugðið eins og mér gerði. Ég þurfti bókstaflega að ná í hökuna mína frá gólfinu. Svona er greinilega þetta stórbæjar líf. Maður þarf að venjast því að það er notað kókaín í almenningssamgöngutækjum. Vá, ég hljóma alveg eins Víkverji í mogganum. En öngvu síður var þetta frekar spes lífsreynsla.

Á miðvikudaginn kom Pétur afmælisbarn og Siggar systir hans á kollegibarinn. Það var fínt kvöld og mikið rætt. Endaði ég í hörðum umræðum um veldi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, mér líkar ekki einu sinni við Garðabæ. Á föstudaginn hjálpaði ég Hallgrími syni Önnu og Adda, vinahjóna mömmu og pabba, að flytja í stórglæsilega íbúð á Islandsbrygge. Eftir að hafa burðast með hjónarúmið upp 8 hæðir endaði kvöldið með bjór, pítsu og SingStar. Ég hef aldrei þótt góður í SingStar, aðallega þar sem ég er bæði falskur og laglaus, eitthvað sem þykir ekki gott í söngbransanum. Þó vann ég þarna minn fyrsta sigur í SingStar og þann eina hingað til. Þegar leið á kvöldið var farið í keppni milli kynjanna og komu í ljós miklir yfirburðir kvennanna. Dróg ég lið mitt verulega niður.

Á laugardaginn skrapp ég til Malmø í Svíþjóð með Guðrúnu og Önnu. Fyrsta skipti þar sem ég hef komið þangað og get ég alveg mælt með Malmø. Við gengum upp og niður helstu verslunargötuna, stelpurnar versluðu og ég sá um að líta vel út, því engan átti ég aurinn til eyða. Um kvöldið var mér svo boðið í mat til Hödda og Önnu Láru í hamborgarahrygg og vil ég hér með nota tækifærið og þakka fyrir mig. Svo var haldið í rall á barnum fram á rauða nótt.

Skólinn er farinn á fullt og það er gott að fá ástæðu til þess að vakna á morgnanna. Upplýsingar um kúrsana mína má lesa hér . Ég tek fyrstu tvo, en því miður byrjar ekki annar fyrr en í apríl. Býst ekki við að neinn skoði þessa kúrsa nema Pálmar. Svo Pálmar þessi linkur er algerlega tileinkaður þér. Ég vona svo að þér gangi vel að vinna þig út úr sorginni sem þú varst í um daginn. Afsakið þetta innslag, en svo ég haldi áfram þá ég tek með einn kúrs um danskar kvikmyndir með, meira til þess að hafa eitthvað að gera. Svo prófaði ég einn kúrs sem fjallar um íslam en hann er í annarri deild og eitthvað vesen að fá hann metin, en ég ætla að mæta í hann þangað til í apríl.

Ég fékk gefins hillu frá Hallgrími og Ástu sem þau ætluðu ekki með í nýju íbúðina. Hún setur held ég punktinn yfir i-ið í C-104. Fötin sem voru röðuð út um alla íbúð eru nú vel brotin saman í hillunni mér til mikillar ánægju. Í tilefni hillunar var tekið til í C-104 og vil ég meina að þetta sé núna hreinasta íbúðin á þessu kollegi.

Ég og Oddur erum byrjaðir að fara reglulega í ræktina sem er hérna í kolleginu. Þetta eru ekki alveg Laugar en aðstaðan þjónar hlutverki sínu vel. Fínt að fara og að hreyfa sig reglulega aftur, líkaminn batnar einnig með hverjum degi. Svo ég hlakka bara til sumarsins og að geta byrjað að hlaupa úti aftur á fullu.

Þessi pistill var svona langur því ég hafði ekki skrifað lengi. Afsakið það.

Kveðja frá C-104.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim