mánudagur, desember 04, 2006

Einn í kotinu

Þá eru seinustu gestir mínir flognir heim á leið og þar með lýkur þessu gestabrjálæði sem búið er að vera í nóvember. Ég kveð það bæði með söknuði og fögnuði. Enda búið að vera frekar stíft prógram. Nú er ekki von á neinum gestum fyrir ritgerðaskil. Ekki veitir af enda þarf ég allan tímann sem get í lestur.

Bjarmi, Beta og Hildur héldu snemma af stað í morgunn eftir mjög svo vel heppnaða ferð. Stelpurnar náðu að versla fullt og meira að segja Bjarmi tók sprett í H&M. Enn á ný horfði ég á fólk eyða peningum með öfundsaugum, fann þó eina jólagjöf sem ég ætla sannfæra foreldra mína að kaupa fyrir mig.

Á föstudaginn fórum ég, Bjarmi og Beta í Fields að versla og enduðum mini-golf sem er staðsett í mallinu. Það var ágætis afþreying fyrir utan þá staðreynd að Bjarmi vann og við deildum brautinni með 40 konum á “besta aldri” sem voru í einhverskonar árshátíð. Að mínum dómi voru þær hvorki í ástandi til að keyra né leika mini-golf. Í lokinn voru boltarnir farnir að fljúga full nálægt manni. Í mini golfi nota bene. Kvöldinu var svo eytt í létt sötur niðrá Kollegibar.

Á laugardaginn byrjuðum við á að fara í Carlsberg verksmiðjuna en þeir hafa sett upp túr um verksmiðjuna. Þetta var með skemmtilegri söfnum sem ég hef farið á. Hafa ska það í huga að ég er búinn með safnafræði í Aðferðum II svo ég er með gagnrýnisgleraugun á mér þegar ég fer á söfn. Í minjagripabúðinni var margt sem hugurinn girntist þó ekkert meir en gamlir Carlsberg kassar, sem voru frekar svalir. Aldrei að vita nema að maður fjárfesti í einum slíkum áður en maður heldur heim á leið. Eftir safnið var haldið í Tívoli. Keyptur var túrpassi og gerð árás á tækin. Hildur umbreytist í 4 ára krakka og naut sín í botn, Bjarmi óttast ekkert eftir allar þessar snjósleðaferðir, Betan var mega hress á tækin og Coop vinkona hennar Hildar hló alltaf eins hún ætti lífið að leysa í tækjunum svo félagsskapurinn var ekki að verri endanum. Farið var í öll helstu tækin. Ég sleppti þó að fara í Himmelskibet og fékk nett diss frá öllum. Réttmætilega. Eftir tækin fórum við á Wagamama sem er staður sem Fríða systir kynnti mér fyrir í London og sérhæfir sig núðlum. Hann setti punktinn yfir i-ið á frábærum degi.

Á sunnudaginn var farið á Strikið og seinustu kaupin á eyrinni (eða höfninni) gerð. Síðan var farið á Roberts kaffi til heiðurs Robba í kaffi og kleinur og svo enduðum við Jensens Bøfhus. Rólegur en ótrúlega vel heppnaður dagur.

Eftir að þau fóru snemma í morgunn fór ég að taka til. Rosalega getur þetta litla herbergi mitt orðið skítugt. Réðst ég á öll þrjú litlu herbergin mín og eru þau orðin eins og ný. Íbúðin stækkaði líka margfalt við þessa tiltekt og allt í einu fannst mér ég hafa fullt af plássi. Baðherbergið var þó sínu verst því af einhverri ástæðu fengu allir þrír gestir mínir þá þrá að faðma klósettið mitt, þó af mismunandi ástæðum og mismunandi mikið. Nóg um það, það er allavega orðið hreint.

Ég setti eitthvað myndum inn á myndasíðuna mína. Um að gera skoða þær elskurnar mínar.



Farfuglaheimilið út.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim