mánudagur, maí 07, 2007

Sønderborg, Parken, Eurovision og Nas

Flott ferð til Sønderborg frá fimmtudegi til laugardags. Virkilega gaman að sjá Evu systir sjá hvernig hún og fjölskyldan lifðu. Þetta er ágætis bær, lítill og virkilega danskur. Lumaði á sögulegum minjum frá bardögum Dana og Þjóðverja um hertogadæmin Slésvík og Holstein sem ég náði að skoða. Pabbi var á svæðinu með nýja barnið í fjölskyldunni, þ.e. hjólið sem er líka svona flott. Litli bróðir fékk samt ekki að koma út að leika því pabbi fann bílskúr og geymdi brósa þar alla helgina. Ég fékk þó far á því á leiðinni til bílskúrsins sem ég naut til hins ítrasta.

Fór svo á Parken með Oddi um eftirmiðdaginn á laugardaginn. Þar gátu FCK menn tryggt sér titilinn með sigri. Það leit vel út þegar fyrirliðinn Tobias Linderoth kom þeim yfir í fyrri hálfleik. En á fimm mínúta kafla í seinni hálfleik náðu Aab að fresta titilfögnuðnum um einn leik í það minnsta með því að skora tvö mörk. FCK fengu þó fullt af færum en inn vildi boltinn ekki. Þessi úrslit ættu þó ekki að koma að sök því FCK með góða forrystu á toppi deildarinnar. Skemmtilegur leikur í alla staði þó svo að það hefði verið óskandi að geta tekið þátt í titilfagnaðarlátunum. Ekki skemmdi svo fyrir að það voru um 32.000 manns á vellinum og virkilega góð stemming allan leikinn.

Á sunnudaginn kom besta veður vorsins hingað til 22 stiga hiti og glampandi sól. Mér til mikillar furðu náði ég bara að vera nokkuð duglegur að læra framan af degi en svo sigraði sólin mig og ég fór út að hlaupa og tók létt tan-session með crewinu.

Þarf að vera duglegur að læra vegna allra þessa komandi heimsókna. Nú síðast var Pétur Einars að bætast í hópinn. Hann kemur í lok maí og rifjar upp gömul kynni við Kaupmannahöfn. Hann nýtir sér svo tækifærið á meðan hann er hérna og fer á tvo tónleika. Þá Xzibit og Nas rapparann góðkunnu, ég neita því ekki að það heillar mig nokkuð að fara á Nas en við verðum að sjá hvað fjármagnið leyfir í lok mánaðarins.

Ég get loksins gefið Íslandi eitthvað tilbaka eftir öll þessi ár sem eyjan hefur gefið mér heimili. Á fimmtudaginn er eins og alþjóð veit undankeppni Eurovision og mun ég í fyrsta skipti nýta minn rétt til að kjósa í einhverju svona sjónvarps tengdu. Ég mun kjósa eins oft og ég get til að reyna koma Eiríki Hauks áfram í úrslitakvöldið þó að ég hafi ekki einu sinni heyrt lagið enn. Annað er ekki planað í vikunni nema lærdómur.

Annars er ég nokkuð ósáttur með sjálfan mig í myndartökumálum. Var annsi duglegur fyrst þegar ég kom en er búinn að vera latur eftir áramót. Þarf að fara taka fleiri myndir. Til skammar að ég tók ekki mynd af Evu og fjölskyldu eða pabba á hjólinu. Svei svei, ég lofa bótum betrum á þessu sviði og auðvita mun ég deila afrakstrinum með lesendum þessra síðu.

Þetta var Gunnar Þorbergur Gylfason fyrir gunnitobbi.blogspot.com. Veri þið sæl.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim