Bless Lars, Hildur, Rut, Pétur, Dagrún og Rósa & Co
Mikil vanræksla hefur verið á þessu bloggi undanfarið. Það stafar ekki (einungis) af leti. Ég er nefnilega ekki að ljúga þegar ég segi að ég er búinn að vera frekar upptekinn síðastliðnu viku.
Þetta byrjaði allt með heimsókn Hildar vinkonu á fimmtudeginum 24. maí. Hún kom vegna viðtals við skóla sem hún sótti um. Hún fékk að gista hjá mér og tókum við því rólega og skemmtum okkur vel. Föttuðum það að við nöldrum eiginlega bara þegar aðrir eru í kringum okkur en erum ljúf eins kettlingur þegar við erum tvö að hanga. Hildur tók nokkrar myndir og vísa ég ykkur í þær hér.
Á föstudeginum mætti svo frekar óvænt hún Rósa systir mín með strákana sína tvo. Þau fengu íbúðina mína og ég og Hildur fengum afnot að íbúðinni hans Odds, sem var einmitt í Bretlandi þessa helgi. Ég og Hildur fórum svo og hittum Rut bekkjarsystur á laugardeginum sem var í stuttu stoppi í Køben á leið sinni til Spánar. Þar fögnuðum við 3 ára útskriftarafmæli okkar úr Kvennaskólanum í Reykjavík.
Á sunnudeginum lenti svo Pétur Einars í Køben. Fór um kvöldið með honum niður í bæ á Pilegarden. Á mánudeginum kvaddi ég svo Hildi með tárum en geta huggað mig við það að hún kemur aftur innan við mánuð á Hróaskeldu.
Í vikunni kláraði ég ritgerðina mína um Lars Von Trier og er nú á fullu að vinna í hinni ritgerðinni. Verður ósköp ljúft þegar þetta klárast allt saman. Var svo mikið með Rósu og fjölskyldu, en Þröstur samblýlismaður hennar mætti á mánudeginum. Fórum nokkrum sinnum út að borða og skemmtum okkur saman. Fórum í Tívolí þar sem Arnar litli frændi teymdi mig í öll tækin og til að halda orðsporinu sem svali stóri frændi hlýddi ég bara.
Þau fóru svo á föstudeginum en sama dag lenti Dagrún systur. Get ímyndað mér að það sé nokkuð ruglandi að lesa um þessar endalausu systur mína ef þið þekkið ekki vel mín fjölskyldubönd. Hún var hérna í hjólakeppni og stóð sig með prýði. Fór tvisar með henni út að borða, í seinna skipti á Loppen sem er frægur staður í Christaniu og kom svona skemmtilega á óvart.
Um helgina datt maður í smá rugl með Pétri Einars enda kominn tími til eftir rólegheit undanfarnar vikur. Pétur Már var svo einnig með vini sína hér og kíktum við saman í bæinn. Spilaði svo leik með IF Guðrúnu vegna manneklu en leikurinn vannst 6-4. Í gær og í dag er svo líkaminn minn að refsa mér fyrir að spila með endalaust af strengjum og verkjum.
Já, þessi færsla er frekar óskiljanleg og öll í kös. Er líka eflaust að gleyma einhverju. Nenni ekki að gera þetta betur enda á ég að vera að skrifa.
Leiter.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim