fimmtudagur, júlí 12, 2007

Heimför

Ég kem heim í kvöld.

Kem með kveðjupistil til heiðurs C-104 eftir helgi.

Leiter.

mánudagur, júlí 09, 2007

Uppgjör við Skelduna

Hróaskelda 2007 er búin. Frábær hátíð sem verður mér lengi minnum höfð.

En er ekki best að byrja á byrjuninni. Fór á sunnudaginn 1. júlí og tjaldaði með Ingva, fór svo heim og beið með eftirvæntingu eftir miðvikudeginum. Á þeim tíma höfðu gestirnir týnst til mín koll af kolli. Á miðvikudags eftirmiðdaginn lögðum svo ég, Oddur, Bjarmi og Orri af stað. Mætum við frekar undarlegar aðstæður. Svæðið hafði gjörbreyst svo mikið frá sunnudeginum til miðvikudags að ég varla þekkti staðinn aftur. Allt var í drullu. Komum okkur fyrir og tjilluðum í campinu.

4 aðfaranótt fimmtudags rumska ég svo við að það er byrjað að rigna. Þegar ég vakna daginn eftir er enn að rigna. Dagurinn leið og enn rigndi. Flúðum inn í tjald því var hvergi annarsstaðar var hægt að vera án þess að vera renn blautur. Kíkti rétt á Arcade Fire og Volbeat enn aðalnúmerin það kvöld voru The Killers og Björk og sá ég þá alla. Alla tónleikana rigndi. Eftir tónleikana ákváðum að flýja heim í C-104 enda tjaldið byrjað að leka og varla þurran blett að finna á manni. Endaði svo með því að ég og Orri komum heim 5 um nóttina eftir heimferð sem mun seint gleymast. Skildumst við hópinn og lentum í rosalegum múgæsingi við að komast í lestina. Gott ævintýri það. Það styttist loks upp í kringum 1 um nóttina eftir 20 tíma af grenjandi rigningu. Þennan dag rigndi 40mm en árið 1997, sem var talin blautasta hátíðin hingað til, rigndi 43 mm alla hátíðina. Eftir þennan rosalega rigningardag rigndi ekkert að ráði þó nóg til að brjóta metið.

Leyfðum okkur að sofa út á föstdaginn. Andinn var frekar brotinn en ekki annað í stöðunni en að drífa okkur aftur á svæðið. Ástandið var þá orðið rosa slæmt á svæðinu og drulla allsstaðar. Svæðið leit út eins og flóttamannabúðir sem maður sér einungis í fréttunum. Um kvöldið stigu Beastie Boys á stokk, Mika cancel-aði því miður en það þýddi bara að við náðum öllum Peter, Bjorn og John tónleikunum. Inn á milli var svo tjekkað á Queens of the Stone Age og Nephew. Sváfum á svæðinu um kvöldið.

Laugardagurinn fór í almenn róleigheit fyrir tónleika kvöldsins. Flaming Lips byrjuðu kveldið. Eyddi mest af þeim tónleikunum í biðröðina fyrir The Who tónleikanna. Vorum alveg fremst á þeim. Red Hot Chili Peppers slúttuðu svo kvöldinu. Orri, Beta og María fóru heim í C-104 en ég og Bjarmi sváfum á svæðinu.

Var ekkert rosa spenntur fyrir dagskránni á sunnudaginn svo ég og Bjarmi sátum bara og kláruðum bjórinn. Fórum svo snemma heim af Muse til þess að lenda ekki í einhverju bulli á leiðinni heim.

Af tónleikunum sem ég sá stóðu The Who upp úr. Hljómsveitin er einn af uppáhaldshljómsveitum pabba og hefur verið í langan tíma svo ég hef hlustað á þá frekar lengi og það var gamall draumur að sjá þá live. Þeir voru rosa þéttir og höfðum mjög gaman af því að vera spila á hátíðinni og það smitaðist frá sér. Björk og The Killers voru frábærir en veðrið hafði smá áhrif á þau enda varla ekki annað hægt. Frábært að sjá Björk live, hafði ekki gert það áður og það er upplifun að sjá hana á tónleikum. Peter, Bjorn og John voru líka góðir. Voru á litlu sviði sem var góð tilbreyting og góður andi var á meðal áhorfenda. Beastie Boys voru flottir og skiluðu sínu vel. Red Hot Chilli Peppers var eina stór hljómsveitin sem brást en þeir voru með frekar undarlegt lagaval og það var eins og söngvarinn hafði eitthvað betra að gera en að vera á sviðinu.

Rigning hafði nokkur áhrif á festival-ið í heild sinni. Metúrkoma á til að gera það. Eftir að maður gallaði sig um morgunninn nennti maður varla úr honum allan daginn enda þvílíkt mál að gera það án þess að drulla út tjaldið. Það varð mun erfiðara að færast um svæðið og maður var lengi að öllu. Sá því mun minna af litlum hljómsveitunum en ég ætlaði mér og kenni ég veðriðinu og aðstæðum um það.

En eins og ég sagði í upphafsorðum þá fannst mér þetta frábært festival og rigningin komst ekki nálægt því að skemma hana. Gæti vel hugsað mér að koma aftur og upplifa hátíðina þurra og sjá muninn. Vil að lokum þakka öllu samfarafólki mínu á hátíðinni fyrir frábæran félagsskap og geggjað festival. Svo ullarpeysum og stígvélum fyrir að vera til, án þeirra hefði Skeldan verið mun gleðiminni.

Ótrúlegt en satt var ég nokkuð duglegur á kubbnum hátíðina. Sjáið árangurinn hér.

Leiter

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Roskilde 2007

Almenn leti hefur verið til þess að ég hef ekkert ritað hér í marga daga. Eftir að skólinn kláraðist er ég búinn að vera að taka því full rólega og varla nennt neinu. En þeir dagar eru nú búnir og sanna ég það hér með góðri færslu.

Fyrir tveimur helgum komum mamma og pabbi í heimsókn eins og greint var frá hér síðast. Alltaf gaman að sjá þau og skemmtum við okkur vel á þessum stutta tíma sem þau voru hér. Fóru meðal annars út að borða á Reef and beef sem er vinsæl ástralskur veitingastaður hér í borg. Fékk mér kengúru sem smakkaðist mjög vel.

Síðan er ég búinn að vera að ganga frá lausum endum í sambandi við heimför. Mörgu að hyggja fyrir þetta allt saman.

Á mánudaginn komu svo Davíð, Gerður, Ívar og Enric í tveggja daga heimsókn á Øresundskollegið. Ég og Oddur skiptum gestunum bróðurlega á milli okkar. Aldrei lognmolla í kringum þetta fólk og að venju var vel setið á Kollegibarnum margfræga. Þau fara svo í dag.

Ég fór á sunnundaginn með Ingva félaga úr I.F. Guðrúnu og nágranna til Hróaskeldu. Fékk bandið mitt og er búinn að veifa því um stoltur síðan. Við tveir tjölduðum 7 tjöldum og mynduðum þetta huggulega camp þar sem við eigum eftir að eiga heima í út hátíðina. Hróaskeldufélagarnir byrjuðu svo að detta inn hver á fætur öðrum. Bjarmi mætti á mánudaginn og Orri á þriðjudaginn. Spennan byrjuð að magnast í hópnum. Planið er að fara í dag á hátíðina. Í kvöld mætir svo Beta og þá er allt mitt samferðafólk á þessari hátíð mætt.

Ingvi félagi er klár strákur. Hann á svona síma sem tekur myndir og þeim er hægt að upphlaða svo strax á veraldarvefinn. Hann ætlar því að halda út lítilli myndasíðu á meðan hátíðinni stendur. Þessi tækni, ótrúleg. Á síðunni verða eflaust einhverjar myndir af okkur og líka af ástandinu á hátíðinni svo ég ætla gefa hér linka á þessa síðu fyrir áhugasama. rafninn-roskilde-2007.blogspot.com

Meira var það ekki í bili. Farinn á Hróaskeldu. Leiter