föstudagur, júní 22, 2007

Dekraður og stórafmæli

Aðeins ofdekrað yngsta barn eins og ég hefði getað dregið foreldra mína frá fínu veðri á Íslandi yfir í rigningaskúr í Danmörku á 25 ára afmælisdegi stóru systur sinnar til þess eins að taka heim fyrir hann (mig) dót. Og ég sem hef alltaf haldið því fram að ég sé ekkert það dekraður. Ég er betur byrjaður að skilja afstöðu systur minnar á þessu máli.

Ég vil nýta mér bloggið mitt til þess að óska þessari sömu systur minni til hamingju með 25 ára stórafmælið. Mér finnst voða leiðinlegt að geta ekki séð hana í dag og gefið henni koss á kinnina og notið félagsskaps hennar. Líkt og alvöru eiginhagsmuna yngri bróðir er ég ekki búinn að senda til hennar afmælisgjöf svo hlý orð mín verða að duga í bili. Svo rétt er að vanda til verks.

Fyrir utan mömmu er Fríða sú manneskja sem ég hef þekkt hvað lengst og get ég ekki ímyndað mér líf mitt án hennar. Alla mína tíð hefur hún verndað mig og hugsað vel um mig. Án nokkurs vafa verið mun betri við litla bróður sinn en bróður hennar við hana. Oft illa launað starf að vera eldra systkyni. Ég vona þó að ég hafi batnað eitthvað með árunum og ef svo er þá á hún stóran þátt í því. Ég hef alla tíð litið mikið upp til hennar og hún hefur haft mikil áhrif á mig sem persónu, meira en ég hef oft þorað að viðurkenna og eflaust mun meira en hún gerir sér grein fyrir. Betri systur getur bróðir ekki getað eignast. Megir þú eiga frábæran afmælisdag í London elsku besta systir mín.

Með kærri afmæliskveðju. Litli bróðir.

þriðjudagur, júní 19, 2007

Sumarfrí

Skilaði seinni ritgerðinni minni inn í gær. Fyrstur til að viðurkenna að ég get gert aðeins betur en þetta en svona er þetta stundum. Var samt orðinn nógu sáttur með hana í lokin fyrir skil. Þakka systur minn kærlega fyrir alla hjálpina við báðar ritgerðinnar. Svo nú er ég bara kominn í sumarfrí í orðsins fyllstu merkingu. Ekkert planað fyrir Hróaskeldu nema að skemmta sér og njóta þess að vera í fríi.

Eiríka móðursystur og Dói maðurinn hennar komu til Danmerkur á miðvikudaginn síðasta til þess að fara Genesis tónleika. Með þeim kom dóttir þeirra og frænka mín Esther Elín. Á meðan þau fóru og horfðu á Phil Collins tromma og tralla varð hún eftir hjá mér. Það var mjög gaman að fá hana í heimsókn. Við fórum saman á Guinness World Record safnið á Strikinu og svo auðvita í Tívolí þar sem þessi mynd er tekin af henni með Candy Floss.



Á föstudeginum buðu svo Eiríka og Dói mér Hereford steikhúsið þar sem ég fékk æðislegan mat. Vil þakka þeim öllum kærlega fyrir heimsóknina og fyrir mig.

Hef frá því í mars verið að senda heim dót héðan frá C-104 og er búinn að segja upp leigunni. Nú er bara að fara ganga frá rest, get dúllað mér við það, ég hef nægan tíma allavega. Oriðið óhugnalega stutt í að ég komi heim. Er orðinn verulega spenntur að hitta alla.

Vil nota tækifærið og óska Döggu systir, Pálmari, Evu og öllum hinum sem voru að útskrifast um helgina til hamingju með þann árangur.

miðvikudagur, júní 13, 2007

Gleði sagnfræðinemans

Að finna loks eftir tveggja tíma leit góða skilgreiningu á hugtaki sem hann getur sett í ritgerðina sína. Þessi skilgreining mun taka um það bil tvær línur í 15 blaðsíðna ritgerð.

sunnudagur, júní 10, 2007

Lærdómur



Ég að læra í dag. Viftan sem er bakvið tölvuna sést ekki en hún er í hæstu stillingu. Ef ég er að tala við ykkur á msn er ég örugglega bara á nærbuxunum einum klæða. Vona að það hræði ykkur ekki frá því að tala við mig, reynið bara að hugsa ekki um það. Mér til varnar er 27 stiga hiti og glampandi sól úti.

föstudagur, júní 08, 2007

Að mæla götuna

Hefur verið starfsheiti margra góðra manna (og kvenna) yfir sumartímann. Svo virðist sem ég bættist í þann góða hóp í sumar ef fer sem horfir. Eftir að sammningaviðræður við Eimskip sigldu í strand sit ég sár eftir án starfs í sumar. Ég hélt að ég hefði verið búinn að ná samkomulagi við yfirmann minn í Eimskip en hef greinilega misskilið manninn svona hrikalega.

En ekki örvænta strax. Ég er farinn á fullt í málið og er byrjaður að væla í bænum að gefa mér starf, við sjáum hvernig það fer. Ég er draumur hvers manns sem er að ráða sumarfólk í vinnu. Ég get ekki byrjað að vinna fyrr en 16. júlí, fer til Eyja um Verslunarmannahelgina og þarf að hætta um leið og Háskólinn byrjar. Ég mundi ekki einu sinni ráða sjálfan mig.

Annars ætti bara að reka Hildi af leikskólanum á Nesinu og gefa mér starfið. Ekki viljum að krakkarnir alist upp haldandi að 101 sé staðurinn og það sé í lagi að vera artý fartý. Ó nei, frekar kjósum við Seltirningar áframhaldandi dugnaðar viðskiptafræðinga sem stefna að heimsyfirráðum. Nei, fyrirgefðu Hildur, ég vil ekkert að þú missir starfið þitt, missti mig bara smá í biturleikanum.

Annars var ég að segja upp leigunni af C-104 sem er ágætis spark í rassinn um að ég sé á leiðinni heim.

Já, ég er að blogga því ég á að vera læra.

Leiter.

miðvikudagur, júní 06, 2007

Að sitja sveittur við lærdóm

Hugtakið hefur öðlast nýja vídd í þessum hita.

mánudagur, júní 04, 2007

Bless Lars, Hildur, Rut, Pétur, Dagrún og Rósa & Co

Mikil vanræksla hefur verið á þessu bloggi undanfarið. Það stafar ekki (einungis) af leti. Ég er nefnilega ekki að ljúga þegar ég segi að ég er búinn að vera frekar upptekinn síðastliðnu viku.

Þetta byrjaði allt með heimsókn Hildar vinkonu á fimmtudeginum 24. maí. Hún kom vegna viðtals við skóla sem hún sótti um. Hún fékk að gista hjá mér og tókum við því rólega og skemmtum okkur vel. Föttuðum það að við nöldrum eiginlega bara þegar aðrir eru í kringum okkur en erum ljúf eins kettlingur þegar við erum tvö að hanga. Hildur tók nokkrar myndir og vísa ég ykkur í þær hér.

Á föstudeginum mætti svo frekar óvænt hún Rósa systir mín með strákana sína tvo. Þau fengu íbúðina mína og ég og Hildur fengum afnot að íbúðinni hans Odds, sem var einmitt í Bretlandi þessa helgi. Ég og Hildur fórum svo og hittum Rut bekkjarsystur á laugardeginum sem var í stuttu stoppi í Køben á leið sinni til Spánar. Þar fögnuðum við 3 ára útskriftarafmæli okkar úr Kvennaskólanum í Reykjavík.

Á sunnudeginum lenti svo Pétur Einars í Køben. Fór um kvöldið með honum niður í bæ á Pilegarden. Á mánudeginum kvaddi ég svo Hildi með tárum en geta huggað mig við það að hún kemur aftur innan við mánuð á Hróaskeldu.

Í vikunni kláraði ég ritgerðina mína um Lars Von Trier og er nú á fullu að vinna í hinni ritgerðinni. Verður ósköp ljúft þegar þetta klárast allt saman. Var svo mikið með Rósu og fjölskyldu, en Þröstur samblýlismaður hennar mætti á mánudeginum. Fórum nokkrum sinnum út að borða og skemmtum okkur saman. Fórum í Tívolí þar sem Arnar litli frændi teymdi mig í öll tækin og til að halda orðsporinu sem svali stóri frændi hlýddi ég bara.

Þau fóru svo á föstudeginum en sama dag lenti Dagrún systur. Get ímyndað mér að það sé nokkuð ruglandi að lesa um þessar endalausu systur mína ef þið þekkið ekki vel mín fjölskyldubönd. Hún var hérna í hjólakeppni og stóð sig með prýði. Fór tvisar með henni út að borða, í seinna skipti á Loppen sem er frægur staður í Christaniu og kom svona skemmtilega á óvart.

Um helgina datt maður í smá rugl með Pétri Einars enda kominn tími til eftir rólegheit undanfarnar vikur. Pétur Már var svo einnig með vini sína hér og kíktum við saman í bæinn. Spilaði svo leik með IF Guðrúnu vegna manneklu en leikurinn vannst 6-4. Í gær og í dag er svo líkaminn minn að refsa mér fyrir að spila með endalaust af strengjum og verkjum.

Já, þessi færsla er frekar óskiljanleg og öll í kös. Er líka eflaust að gleyma einhverju. Nenni ekki að gera þetta betur enda á ég að vera að skrifa.

Leiter.