Dekraður og stórafmæli
Aðeins ofdekrað yngsta barn eins og ég hefði getað dregið foreldra mína frá fínu veðri á Íslandi yfir í rigningaskúr í Danmörku á 25 ára afmælisdegi stóru systur sinnar til þess eins að taka heim fyrir hann (mig) dót. Og ég sem hef alltaf haldið því fram að ég sé ekkert það dekraður. Ég er betur byrjaður að skilja afstöðu systur minnar á þessu máli.
Ég vil nýta mér bloggið mitt til þess að óska þessari sömu systur minni til hamingju með 25 ára stórafmælið. Mér finnst voða leiðinlegt að geta ekki séð hana í dag og gefið henni koss á kinnina og notið félagsskaps hennar. Líkt og alvöru eiginhagsmuna yngri bróðir er ég ekki búinn að senda til hennar afmælisgjöf svo hlý orð mín verða að duga í bili. Svo rétt er að vanda til verks.
Fyrir utan mömmu er Fríða sú manneskja sem ég hef þekkt hvað lengst og get ég ekki ímyndað mér líf mitt án hennar. Alla mína tíð hefur hún verndað mig og hugsað vel um mig. Án nokkurs vafa verið mun betri við litla bróður sinn en bróður hennar við hana. Oft illa launað starf að vera eldra systkyni. Ég vona þó að ég hafi batnað eitthvað með árunum og ef svo er þá á hún stóran þátt í því. Ég hef alla tíð litið mikið upp til hennar og hún hefur haft mikil áhrif á mig sem persónu, meira en ég hef oft þorað að viðurkenna og eflaust mun meira en hún gerir sér grein fyrir. Betri systur getur bróðir ekki getað eignast. Megir þú eiga frábæran afmælisdag í London elsku besta systir mín.
Með kærri afmæliskveðju. Litli bróðir.