miðvikudagur, maí 23, 2007

Heitt

Hvernig á að vera hægt að sitja inni og skrifa ritgerð í 20 stiga hita og glampandi sól?

sunnudagur, maí 20, 2007

Ritgerðarskrif og tilhlökkun til sumars

Er mest að dúlla mér við skriftir þessa dagana. Tímarnir búnir í skólanum svo nú get ég helgað mig algerlega skrifum. Gengur alveg sæmilega og er ég kominn vel á veg með fyrri ritgerðina. Enda nauðsynlegt að byrja haska sér enda von á gestum á næstunni. Hildur mætir á fimmtudaginn og verður eitthvað inn og út úr C-104, en það er barist um stelpuna þegar hún er í Kaupmannahöfn enda á hún marga að hér í borg. Svo verður víst Rut bekkjarsystir úr Kvennó líka á svæðinu svo maður reynir að hitta á hana. Eftir viku mætir svo Pétur Einars hingað. Svo það er ágætis dagskrá framundan.

Eins og ég hef sagt áður þá skila ég seinni ritgerðinni 18 júní. Eftir það er ekkert planað fram af Hróaskeldu og lítur út fyrir mitt fyrsta sumarfrí í mörg ár. Er ætlunin að njóta seinustu daga hérna í Kaupmannahöfn og nýta góða veðrið og jafnvel kíkja til Árósa. Fer svo á Hróarskeldu 5-8 júlí, þar eru Orri, Bjarmi og Hildur búin að staðfesta komu sína og er mikil tilhlökkun af minni hálfu fyrir hátíðinni. Svo er það bara heimferð 12 eða 13 júlí og beint í vinnu í Eimskip. Um Verslunarmannahelgina er búið að plata mig til Eyja á Þjóðhátíð og er ég nett spenntur fyrir því líka enda aldrei farið áður, ekki þó að spennan sé eitthvað á við Hróa. Annað er svo ekki stórplanað þetta sumar en í haust er markmiðið að kíkja á Tinnu í Alabama með Bjarma enda síðasta tækifæri til að nýta sér fría gistingu hjá henni því hún útskrifast næsta vor. Svona er sumarið mitt í grófum dráttum.

Ekki meira að sinni. Leiter.

föstudagur, maí 18, 2007

15 apríl til 15 maí

Number of workouts 20
Total Distance 166.36 km
Total Time 14.11 klst
Total Calories 14953
Average pace is 5´07 per km

Heimild: iPodinn minn

mánudagur, maí 14, 2007

Kosningavaka

Spennandi kosningum lokið. Er búinn að vera nokkuð úr sambandi þessar kosningar enda búsettur í öðru í landi. En að sjálfsögðu nýtti ég mér minn lýðræðislega rétt og kaus utankjörstaðar í Sendiráðinu í Kaupmannahöfn. Með um það bil 10.000 þúsund manns búandi í Kaupmannahöfn fannst mér skrýtið að ekki var lögð meira áhersla hjá flokkunum að kíkja hingað og kynna málefnin sín. Sá samt að Samfylkingin hefði komið hingað en hef ekki fundið neitt frá öðrum flokkum. Gæti haft eitthvað með það að gera að nún er hægt að finna mest allt um kosningastefnur flokkanna á netinu ef fólk hefur áhuga.

Þarf ekkert að fara ítrarlega yfir úrslitin. Annað hvort vitið þið þau eða þið hafið ekki áhuga á að vita þau. Ég var nokkuð ánægður með kosningarnar í heild sinni. Sáttur með árangur Sjálfstæðisflokksins og að ríkisstjórn hélt velli. Ekki kannski eins ánægður með fréttir þess efnis að hún ætli að halda áfram óbreytt. Fannst kjósendur vera að senda Framsókn viss skilaboð. Finnst líka ekki rétt að vera með ríkisstjórn þar sem einungis einn aðili þarf að vera ósammála svo að stjórnarandstæðan fái meirihluta. Með formanninn ekki á þingi og innanbúðarmál í nokkru ójafnvægi uppá síðkastið hjá Framsókn finnst mér ekki rétt að halda áfram ríkisstjórn Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Þó mundi ég kjósa þá ríkisstjórn fram yfir gamla R-lista samstarfið sama hvaða dag vikunnar sem er.

Árangur Sjálfstæðisflokk og Vinstri-Græna var glæsilegur í þessum kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að vera í ríkisstjórn síðustu 16 ár og hefur tæklað mörg umdeild stórmál á þeim tíma. Bættir við sig 3 nýjum þingmönnum, er enn lang atkvæðamesti flokkur landsins og nýtur mest traust. Með Vinstra-Græna er þetta einnig frábær sigur sökum þess að hér á landi er til annar jafnaðarmannaflokkur, sem er reyndar ekki eins langt til “vinstri”, og flokkur þar sem umhverfismál eru númer 1,2 og 3. Það virtist þó ekki koma af sökum og flokkurinn bætti við sig 4 nýjum þingmönnum.

Ég og Oddur horfðum saman á kosningarnar. Kosningavaka er eitt af mínu uppáhalds sjónvarpsefni og hefur verið alveg frá því að ég horfði á mínu fyrstu Alþingiskosningar 1995 með afa og ömmu upp á Grundargerði. Mér fannst þetta rosa spennandi og hef í raun ekki enn komist yfir þessa spennu. Ég entist til 5 af dönskum tíma þegar ég eiginlega rak Odd út sökum þreytu og fór í rúmið með fallna ríkisstjórn. Vaknaði svo 11 daginn eftir og flýtti mér að kíkja inn á mbl.is, ég vissi það ekki þá en lokaniðurstöðurnar voru bara nýdottnar inn og ríkisstjórnin hélt velli.

föstudagur, maí 11, 2007

Ég kaus eins oft og ég gat

...en það var bara ekki nóg.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Stjórnmálaskoðanir

Tók fremur kjánalegt og mjög svo staðlað próf á netinu sem á að gefa manni vísebendingu um hvert maður hallast í íslenskum stjórnmálum.

Útkoman var þessi:

Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 68.75%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 30%
Stuðningur við Samfylkinguna: 37.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 18.75%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 39%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%

Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Sjálfstæðisflokksins!

Kom þetta einhverjum virkilega á óvart?

mánudagur, maí 07, 2007

Sønderborg, Parken, Eurovision og Nas

Flott ferð til Sønderborg frá fimmtudegi til laugardags. Virkilega gaman að sjá Evu systir sjá hvernig hún og fjölskyldan lifðu. Þetta er ágætis bær, lítill og virkilega danskur. Lumaði á sögulegum minjum frá bardögum Dana og Þjóðverja um hertogadæmin Slésvík og Holstein sem ég náði að skoða. Pabbi var á svæðinu með nýja barnið í fjölskyldunni, þ.e. hjólið sem er líka svona flott. Litli bróðir fékk samt ekki að koma út að leika því pabbi fann bílskúr og geymdi brósa þar alla helgina. Ég fékk þó far á því á leiðinni til bílskúrsins sem ég naut til hins ítrasta.

Fór svo á Parken með Oddi um eftirmiðdaginn á laugardaginn. Þar gátu FCK menn tryggt sér titilinn með sigri. Það leit vel út þegar fyrirliðinn Tobias Linderoth kom þeim yfir í fyrri hálfleik. En á fimm mínúta kafla í seinni hálfleik náðu Aab að fresta titilfögnuðnum um einn leik í það minnsta með því að skora tvö mörk. FCK fengu þó fullt af færum en inn vildi boltinn ekki. Þessi úrslit ættu þó ekki að koma að sök því FCK með góða forrystu á toppi deildarinnar. Skemmtilegur leikur í alla staði þó svo að það hefði verið óskandi að geta tekið þátt í titilfagnaðarlátunum. Ekki skemmdi svo fyrir að það voru um 32.000 manns á vellinum og virkilega góð stemming allan leikinn.

Á sunnudaginn kom besta veður vorsins hingað til 22 stiga hiti og glampandi sól. Mér til mikillar furðu náði ég bara að vera nokkuð duglegur að læra framan af degi en svo sigraði sólin mig og ég fór út að hlaupa og tók létt tan-session með crewinu.

Þarf að vera duglegur að læra vegna allra þessa komandi heimsókna. Nú síðast var Pétur Einars að bætast í hópinn. Hann kemur í lok maí og rifjar upp gömul kynni við Kaupmannahöfn. Hann nýtir sér svo tækifærið á meðan hann er hérna og fer á tvo tónleika. Þá Xzibit og Nas rapparann góðkunnu, ég neita því ekki að það heillar mig nokkuð að fara á Nas en við verðum að sjá hvað fjármagnið leyfir í lok mánaðarins.

Ég get loksins gefið Íslandi eitthvað tilbaka eftir öll þessi ár sem eyjan hefur gefið mér heimili. Á fimmtudaginn er eins og alþjóð veit undankeppni Eurovision og mun ég í fyrsta skipti nýta minn rétt til að kjósa í einhverju svona sjónvarps tengdu. Ég mun kjósa eins oft og ég get til að reyna koma Eiríki Hauks áfram í úrslitakvöldið þó að ég hafi ekki einu sinni heyrt lagið enn. Annað er ekki planað í vikunni nema lærdómur.

Annars er ég nokkuð ósáttur með sjálfan mig í myndartökumálum. Var annsi duglegur fyrst þegar ég kom en er búinn að vera latur eftir áramót. Þarf að fara taka fleiri myndir. Til skammar að ég tók ekki mynd af Evu og fjölskyldu eða pabba á hjólinu. Svei svei, ég lofa bótum betrum á þessu sviði og auðvita mun ég deila afrakstrinum með lesendum þessra síðu.

Þetta var Gunnar Þorbergur Gylfason fyrir gunnitobbi.blogspot.com. Veri þið sæl.

miðvikudagur, maí 02, 2007

Søndeborg

Lítið heyrst í mér. Enda lítið að segja. Ég vakna, læri, fer út að hlaupa, læri og fer svo að sofa. Inn á milli fer ég í tíma og reyni að skemmta mér með öðrum.

En á morgunn brýt ég upp rútínuna. Ég ætla að heimsækja Evu systur til Søndeborg, sem er dönsk borg sem er á Jótlandi og liggur nærri Þýskalandi. Þar verður líka pabbi en hann er að sækja mótórhjólið sitt fræga sem ég skrifaði um hér fyrir nokkru.

Verð þar fram á laugardaginn en þá er markmiðið að fara á Parken og sjá FCK. En Oddur stærðfræðingur er búinn að reikna það út að ef FCK vinnur þann leik verða þeir meistarar. Sérstaklega gaman að vera á Parken ef það gerist.

Fríða systir er svo væntanlega einhvern tímann seinna í mánuði svo það er heimsókn til að hlakka til.

Ég er annars svo tómur að ég kveð bara að sinni. Farið vel með ykkur.