þriðjudagur, apríl 24, 2007

Molar

• Fór í póker með nokkrum strákum úr IF Guðrúnu á föstudagskvöldið. Gerum þetta svona á 3 vikna fresti og höfum gaman af. Leggjum oftast bara 50 danskar undir svo þetta er enginn rosa pottur sem sigurvegarinn fær enda meira gert til að hafa gaman af og svo til að þessir sem eru í sambandi fá smá frið frá kærustunum.

• Fór í skoðunarferð í höfuðstöðvar Nordisk Film með kvikmyndakúrsnum mínum á laugardaginn. Ótrúlegt að eitt elsta kvikmyndastúdíó í heimi hafi ekki áhugaverðari túr um svæðið sitt. Þarna var eiginlega ekkert að skoða nema tóm stúdío endurgerðir af gömlum settum. Leiðsögumaðurinn okkar talaði líka mjög lélega ensku sem var ekki til að auka áhugann.

• Um kvöldð var svo surprise afmælispartý fyrir hana Kristínu hans Odds. Óvænta uppákoman tókst fullkomlega og allir skemmtu sér vel í partýinu sem fylgdi eftir. Við gáfum stelpunni blender (sem Hödda tókst þó að eyðileggja seinna um kvöldið…) og var farið í að blanda kokteila. Skemmtileg tilbreyting frá bjórnum.

• Pálmar sagnfræðifélagi var svo Íslandsmeistari í handbolta á sunnudaginn. Þar sem hann er manna duglegastur að kommenta á þetta blogg finnst mér tilvalið að óska honum til hamingju með árangurinn hérna.

• Er búinn að vera mjög duglegur að hlaupa og er formið er allt koma. Er búinn að setja stefnuna á 21km í Reykjarvíkurmaraþoninu í sumar. Fer samt bara ef ég tel mig geta bætt tímann minn frá því í fyrra sem er 1:34, vil helst vera undir 1:30. Eina sem ætti að koma í veg fyrir það er hnéið mitt sem er búið að vera stríða mér og, já, kannski bjórinn.

• Hefði átt að monta mig aðeins meira af veðrinu í síðustu færslum því eftir þennan sólríka dag er eiginlega búið að vera frekar leiðinlegt veður. En nú á að fara aftur hlýnandi, ég vona bara að ég hafi ekki jinxað þetta aftur.

• Nú tekur við prófatörn hjá mér. “Prófin” mín eru tvær 15 bls ritgerð. Í kvikmyndakúrsnum ætla ég að skrifa um danska leikstjórann Lars Von Trier og er skiladagur 1. júní. Í hersetu kúrsnum mínum ætla ég að bera saman resistance hreyfingar í Danmörku og Noregi á meðan hersetu Þjóðverja í Seinni Heimsstyrjöldinni stóð yfir, sú ritgerð á að skila 18. júní.

• Hildur er svo væntanleg hérna Hvítasunnuhelgina í viðtal vegna skóla sem hún sótti um. Tilviljun ein réði því að einmitt sömu helgi er önnur bekkjarsystir í Köben en það er hún Rut. Ætli þær eigi ekki eftir að draga mann á svona eins og eitt kaffihús til ræða málin. Ég held það bara.

mánudagur, apríl 16, 2007

Sól sól skín á mig



í dag, 16. apríl, fór ég í sólbað í fyrsta skipti þetta sumar. Það var um 20 stiga hiti og sólin skein glatt. Fínt að fara út og lesa sína lexíur í svona veðri. Vonandi er þettta fyrirheit um gott sumar þó svo að spámennirnir segi að hitastigið eigi að lækka um helming þegar líða tekur á vikuna.

sunnudagur, apríl 15, 2007

Hróarskeldumiðar komnir í hús



Ekki frá því að spennan sé byrjuð að magnast enda einungis 76 dagar, 16 tímar, 31 mínúta og 58 sekúndur í hátíðina þegar þetta er skrifað.

laugardagur, apríl 14, 2007

Frá lubba yfir í Bubba

Myndirnar tala sínu máli





Langt síðan ég ákvað þetta en lét loksins verða af þessu í gær. Svona bara til að gleðja mömmu því henni finnst ég svo ljótur svona. Rakvélin var því miður ekki nógu góð svo að það var tekið aðeins of mikið að hárinu að mínum dómi. Verður betra eftir nokkrar vikur. Ég er samt hæstánægður með árangurinn.

Hér má sjá fleiri myndir.

föstudagur, apríl 13, 2007

Páskarnir og heimsókn Gagga

Við félgarnir erum búnir að bralla margt og mikið, lítið og skrýtið á þessari viku heimsókn Garðars. Við snæddum saman fajitas á Páskadag, eflaust í fyrsta og eina skitpið sem ég borða mexikóst á þeim degi. Fljótlegt og gott. Garðar treystir sér miera að segja til að mæla með þessum rétt.

Ætluðum að grilla lambið sem hann kom með á páskadag. En það rigndi bara svo mikið. Daginn eftir var aftur á móti heiðskýrt og kjörin aðstaða til grill iðkunar. Þá grilluðum við þetta fína páskalæri sem heppnaðist líka svona vel. Var þetta frumraun mín í lambagrilli, allavega svona frá a-ö, hef áður staðið yfir lambinu, drukkið bjór og þóst gera eitthvað. En núna þurfti ég að hugsa um sósuna, meðlætið og borðhaldið, mikil ábyrgð sem ég tæklaði vel. Við buðum svo Oddi og Kristínu að njóta matarins með okkur. Voru allir á því að þetta smakkaðist mjög vel. Þetta geutr maður ef maður tekur sig til. Garðar á þó skilið sitt hrós við þessa eldamennsku.

Við heimsótum í Carlsberg verksmiðjuna, enda áhugamenn um hinn gyllta löður. Mér finnst alltaf jafn gaman að heimsækja "mekka" bjórsins. Fjárfesti meira að segja í einhverjum minjagripum frá verksmiðjunni og er ég núna kominn með ágætis safn sem stækkar með hverri heimsókn.

Fyrir utan að ganga endalaust upp og niður Strikið erum við búnir að heimsækja Fisketorvet og Fields sem eru tvær stærstu verlsunarmiðstövarnar hér í borg. Garðar búinn að standa sig vel í eyðslu og búinn að fjárfesta í ýmsum hlutum. Það er mun auðveldara að versla með honum heldur en tveim síðustu gestum mínum.

Búið að vera heitt og gott síðustu daga. 15 stiga hiti og sól. Eum við búnir að nýta sólina mjög vel. Fara út að hlaupa og hanga úti allan liðlangan daginn. Fórum í siglingu um canalinn í dag sem var fróðlegt og skemmtilegt. Veðrið fullkomnaði siglinguna enda glapandi sól. Ekki frá því að ég sé aðeins rjóðari kinnum en ég var fyrir.

Mamma kemur svo óvænt í vinnuferð hingað á morgunn. Markmiðið að hitta hana í þessa tvo frítíma sem hún fær. Á meðan sendi ég Gagga í Tívolið með Pétri Má. Buddan mín er þakklát fyrir að sleppa við sá ferð enda er ég ekki enn búinn að fjárfesta í nýju árskorti, á meðan grætur þó barnið í mér.

Garðar flýgur svo heim á sunnudaginn. Búið að vera frábært að hafa hann og erum við búnir að skemmta okkur ærlega. Verður þessi vika lengi í minni höfð.

Búið. Meira fljótt.

sunnudagur, apríl 08, 2007

Málshátturinn minn

Ber er hver á baki nema sér bróður eigi.

Gleðilega Páska

Já, gleðilega páska allir saman. Ég ákvað að kasta inn þessari kveðju á meðan ég bíð eftir að haugurinn hann Garðar vakni. Vikan var annars pollróleg og lítið gert.

Kíkti þó í póker með strákum úr IF Guðrúnu á föstudaginn og smá øl eftir það. Loks fór ég heim með pottinn eða potturinn endaði í vasanum á konunni á barnum.

Garðar lenti í gær. Tókum því rólega og helguðum deginum okkar helstu ástríðu. Að horfa á fótbolta. Döpur úrslit voru ekki nóg til að slá okkur af laginu og vorum við að fíflast og hlæja nánast allan daginn.

Í töskunni með Gagga komu ýmsir hlutir frá foreldrum mínum. Þar ber hæst að nefna nýja hlaupaskó sem ég get ekki beðið eftir að vígja. Auk þess kom þetta upp úr töskunni. Ég er alveg að deyja að prófa þetta enda smá Apple óður. Því miður á ég ekki iPod Nano. Á einhver tvo og vill losa sig við einn?

Ég er farinn að ráðast á páskaeggið mitt. Hafið það gott um páskana.

mánudagur, apríl 02, 2007

Páskfrí

Veikindi og ritgerðarvinna komu í veg fyrir að ég skrifaði eitthvað hérna inn í síðustu viku. Það gerðist líka frekar fátt. Gott veður en ég þurfti að hanga hérna inni með einhverja pest að rembast við að skrifa. Það gekk svo ekkert að skrifa, þarf nú að klára 2 bls við ritgerðina og senda hana á kennarann minn.

Á föstudaginn fór ég í páskafrí og þarf ekkert að mæta aftur í skólann fyrr 10. apríl. Gott að fá smá frí. Verð í einhverri ritgerðavinnu en annars rólegur þangað til að Garðar mættir á svæðið á laugardaginn. Hann mun koma eins og páskakanína hlaðinn góðgæti. Páskalæri, páskaegg, Ora korn og piparostur. Þetta verður svo allt sett í páskadagsveisluna okkar. En skemmtilegast verður að fá strákinn.

Fór á sunnudaginn í gönguferð um slóðir Íslendinga í Kaupmannahöfn. Guðlaugur Arason rithöfundur sér um þessar göngur. Ég hafði mikið gagn og gaman af. Guðlaugur er virkilega fróður og kemur upplýsingunum skemmtilega frá sér. Mæli ég eindregið með þessu ef þið eruð eitthvað að væflast í Kaupmannahöfn og viljið fræðast um sögu Íslendinga hér. Það er nóg af henni, enda var nú þetta einu sinni höfuðborg Íslands í um 500 ár. Annars er ég orðinn nokkuð fróður um Kaupmannahöfn eftir að hafa farið í þennan túr, hlustað á fyrirlestur um byggingarsögu Kaupmannahafnar, farið í kúrsa sem tengjast Kaupmannahöfn og farið í gönguferð um stríðsmynjar Kaupmannahafnar frá Seinni Heimsstyrjöldinni. Treystu mér samt ekki í það vera tour guide strax.

Nú eru allir farnir heim til Íslands í páskafrí. Er því nokkuð einn hérna en hef gaman af. Finnst gott að vera einn. Enda er að mínum dómi nokkuð nauðsynlegt að fólk kunni að vera félagsskap með sjálfum sér. Þó svo að það sé nú skemmtilegra að hafa einhverja í kringum sig. En Garðar kemur nú bara eftir nokkra daga svo þetta er ekkert slæmt. Það er líka ekki eins og ég sé einn í Kaupmannahöfn.

Ég held að mér sé óhætt að segja að vorið sé komið hingað. Hitastigið hefur verið að hækka og sólin er byrjuð að heiðra mann með nærveru sinni. Eftir veikindinn hef ég verið duglegur að hlaupa og það er frábært að hlaupa í svona veðri. Á stuttbuxum í sólskinni í mars. Best að njóta þess meðan maður getur.

300

Fór á 300 á laugardaginn. Búinn að vera bíða eftir henni frá því ég sá fyrsta trailer-inn af henni. Mér fannst hún góð. Gríðarleg vel stílstuð og tölvuvinnsla flott. Handritið ágætt, flest samtölin eru gríðarlega dramtískar hetjuræður sem skilja ekki mikið eftir sig, en þjóna myndinni vel. Ég ætla samt ekkert að koma með kvikmyndagagnrýni hér heldur að fjalla um annað málefni sem tengist þessari mynd.

Var búinn lesa og heyra um myndina áður en ég fór á hana. Þar var hún kölluð sögufölsun á hæsta stigi og í raun áróður Bandaríkjamanna gagnvart Írönum. Las grein í Fréttablaðinu um þetta fyrir um það bil viku síðan. Mér finnst rétt að menn hafi nokkrar staðreyndir bak við eyrað.

Það er rétt að myndin er lauslega byggð á bardaga sem gríski sagnaritarinn Heradótus, almennt kallaður faðir sagnfræðinnar, lýsti í verki sem hann skildi eftir sig. Ég ætla nú ekkert að sverta hans nafn enda er hann ekki í aðstöðu til að verja sig og hefur eflaust gert sitt besta miðað við tíð og tíma. En menn verða lesa hans skriftir með gagnrýnum hug. Sagnfræðileg vísindalega vinnubrögð þekktust ekki á þessum tíma. Þess fyrir utan að hann var hlutdrægur sem Grikki vegna þess að allt Grikkland græddi á “sigri” þessa 300 manna. Þess vegna getur verið að hann hafi farið frjálslega með staðreyndir, á hann til dæmis að hafa ýkt mannfjölda Persa mikið.

En aðalatrið er samt að þessi mynd er byggð á “graphic novel” eftir Frank Miller, sá hinn sama og skrifaði graphic novel-ana Sin City og Batman Returns. Myndin er víst sönn sögunni og byggð upp eins. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið þessa myndasögu en menn sama hafa gert það eru víst sammála um þetta.

Þess vegna finnst mér að menn ættu að fara rólega í að dæma þessa mynd á þeim forsendum að hún sé ekki sagnfræðilega rétt og hrein og klár sögufölsun. Því hún gefur sig aldrei út fyrir að vera sagnfræðilega rétt þó svo að hún gerist á þessum tíma. Menn eiga að njóta hennar sem sem myndasögu kvikmynd líkt og Sin City. Að gagnrýna hana fyrir sögufölsun er svipað og íbúar Basin City í Bandaríkjunum mundu gagnrýna Sin City sem áróðursmynd gagnvart borginni.

Persónulega fannst mér gaman af því hvað Spartverjarnir voru breskir í háttum og töluðu ensku með miklum hreim. Hefðu þeir ekki tekið fram að þeir væru Spartverjar í annarri hverri setningu hefði ég allt eins ímyndað mér að þetta væru breskir stríðsgarpar. Er það rétt nálgun á mynd sem þykist vera sagnfræðilega rétt?

Með gagnrýni Írana hef ég lítið að segja. Það gæti vel verið að ástandið í dag hafi eitthvað með það að gera að þessi mynd hafi verið gerð, flýtt framleiðslu eða fjármögnuð. En ég ætla ekki að trúa að þetta sé pólitískt verk nema Frank Miller segi að það sé svo, enda höfundurinn á verkinu og sá eini sem veit svarið.