miðvikudagur, febrúar 28, 2007

Topp 5

Við hertöku Þjóðverja á Danmörku þann 9. apríl 1940.

1. Algjör afneitun Dana við yfirvofandi hertöku, þó sérstaklega hjá Dr. Munch utanríkisráðherra, jafnvel þó þeir höfðu verið varaðir við þýska hernum deginum áður.
2. Þegar Þjóðverjar sigldu inn höfnina í Kaupmannahöfn, snemma morguns þann 9. apríl 1940, ætluðu danskir hermenn sem stóðu vörð við höfnina að vernda Danmörku og skjóta á þá úr fallbyssum. Því miður kunnu þeir ekki á fallbyssurnar.
3. Í staðinn fyrir að flýja frá hermönunum eða bera merki um ótta þá þyrptist fólk að þeim forvitið um hvað var að gerast.
4. Þjóðverjar lokuðu götum við Østerbro sem varð til þess að fólk komst ekki áfram í nokkurn tíma. Þetta var helst umkvörtunarefni Dana þennan dag. Þetta varð einnig til þess að sumir af helstu ráðherrum Dana urðu seinir á mikilvæga fundi um hertökuna því þeir sátu fastir.
5. 13 hermenn á Jótlandi björguðu “heiðri” danska hersins með skjóta nokkrum kúlum í átt til Þjóðverja, þó án þess að hitta neinn. Þeir höfðu ekki fengið skipunina að það mætti ekki skjóta á Þjóðverja.

Norðmenn aftur á móti öfugt við Dani kunnu á sínar fallbyssur og skutu á Þjóðverja. Þeir reyndu að berjast á móti stórveldinu en áttu aldrei séns í þýsku stríðsvélina. Vegna þess að þeir börðust fengu þeir verri umönnun frá þeim þýsku á meðan hertökunni stóð miðað við Dani. Bitrir fundu Norðmenn upp á orðatiltækið “að flýja eins og Dani” eða “Run as a Dane” eins og kennarinn minn orðaði það. Það þótti mikil móðgun í Noregi ef þetta var sagt um nokkurn mann.

Það skal tekið fram að þetta er skrifað í kaldhæðnislegum tón og er ekki fullkomlega sagnfræðilega rétt. Sem sagt meira skrifað í gamansömum tilgangi.

mánudagur, febrúar 26, 2007

Grái fiðringurinn

Þau ykkar sem þekkið til pabba míns vita að hann er ekki eins og allir aðrir pabbar. Hans hugymynd um sumarfrí er að hlaupa maraþon eða klífa fjöll. Hann hefur meira að segja flúið til Ekvador að klifra fjöll yfir hátíðirnar til þess að komast hjá fjölskylduboðum. Þið sem þekkið mig vel vitið að þetta er frekar ólíkt mér. Það er kannski vegna þess hversu ólíkir við erum hve vel okkur kemur saman.

Fréttir að heiman herma að maðurinn sé kominn með gráa fiðringin. Það byrjaði víst mjög sakleysilsega. Hann keypti sér gítar og fór í gítarkennslu. Svo jókst þetta víst alltaf, hann keypti sér rafmagnsbassa og svarar ekki undir öðru nafni en Santana. Hann er búinn að biðja um svefnpláss hjá mér fyrir Hróaskeldu til þess að sjá hetjurnar sínar í The Who stíga á svið. Hann sagði að ef The Who væru nógu ungir til þess að spila á hátíðinni væri hann nógu ungur til að hlusta á þá þar. Ég mótmælti því ekki. En allt þetta er hneta miðað við hvað hann gerði nú síðast. Hann toppaði sig algjörlega með því að kaupa sér mótórhjól án þess að spyrja kóng né prest. Á ég nú að hafa áhyggjur af því að hann fari að yngja upp? Njéé, varla.


Hér má sjá pabba eyðileggja fullkomlega góða mynd af mér og mömmu.

Hann er víst væntanlegur í maí í heimsókn til mín til þess að koma hjólinu í ferju til Íslands. Ég er ekki mikil mótórhjóla maður svo ég get lítið frætt ykkur um þetta hjól. En það heitir víst Honda 650 Transalp og er ágerð 2006. Meira veit ég ekki. Svo það er aldrei að vita nema að ég fái mér mótórhjólapróf næsta sumar. En hugmyndin um mig á mótórhjóli í leðurgalla á Ingólfstorgi finnst mér frekar fyndin.

Annars var helgin með því allra rólegasta. Lítið á dagskránni þessa viku nema að stunda skólann. Um næstu helgi er svo Icelandair open. Það er innanhúsfótboltamót sem IF Guðrún heldur hérna. Það verður án nokkurs vafa heljarinnar fjör sem ég á eftir að sjá eftir næstu vikurnar þegar ég get ekki gengið án verkja. Að hlusta á mig, ég er byrjaður að kvarta áður en verkurinn er kominn. Ég er alger kjói.

Meira var það ekki.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Snjóstormur

Þessar myndir eru ekki teknar á Akureyri. Nei, þær eru teknar í 2300 Kaupmannahöfn.





Allar samgöngur hafa tafist og sums staðar fellur vinna og skóli niður. Heima væri þetta nú ekki kallað mikið meira en snjókoma. Ojæja, það geta ekki allir verið eins.

Það er samt ekki gott að hjóla í snjó.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Getraun dagsins

Hvaða sjónvarpsþáttur er þýddur yfir á dönsku sem "Rap fyr i LA"?

þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Himmaheimsókn

Löng helgi að baki. Himmi mætti á fimmtudaginn og þá fór allt í gang. Ég eiginlega rankaði bara við mér á sunnudaginn með hausverk og enga peninga í veskinu. En fjandinn hafi það þetta var þess virði. Á fimmtudaginn var farið í bæinn og Hilmar keypti sér skó aldarinnar. LA Lakers strigaskó sem eru frekar smooth og var hampað alla ferðina. Eftir það var kíkt á kollegibarinn.

Föstudagurinn byrjaði með léttum tíma en ég kláraði skólann um 13. Þá héldum ég, Oddur og Höddi með túristann í Carlsberg og svo í Christaníu. Um að gera að skoða menninguna. Um kvöldið kom Sigga Hrönn yfir á kollegið og var mikið spjallað, hlegið og rifjað upp. Kvöldið endaði niðrí bæ á skemmtistaðnum Moose.

Á laugardaginn var haldið í Lundromat, sem er matsölustaður sem Frikki Weiz á í og er vinsæll með Íslendinga hér Køben. Þar fékk ég besta hamborgara sem ég hef smakkað á tíma mínum hér í Kaupmannahöfn. Um kvöldið var bjórkvöld hjá IF Guðrúnu. Þar var heljarinnar för. Gaman að segja frá því að Kristín, kærastan hans Odds, vann tvo miða fram og tilbaka til Íslands í happdrætinu. Svo var hringt í Jölla í gegnum Skype. Gaman að sjá strákinn þó svo samtalið hafi kannski ekki verið upp á marga fiska. Erfitt að vera þrír að tala við einn.

Á sunnudaginn fór ég í hjólatúr með Guðrúnu. Byrjað var að fara í Jónshús og keypt miða á Þorrablótið sem er um næstu helgi, ég er þó ekki að fara. Svo endaði túrinn eiginlega bara í skoðunarferð um Kaupamannahöfn þar sem meðal annars Litla hafmeyjan var heimsótt. Hún er alltaf jafn lítil. Hilmar var svo kvaddur um kvöldmatarleitið. Í tilefni konudagsins splæsti ég í símtal til Mömmu og Fríðu. Þær eru konunar í mínu lífi. Fríða á skíðum í Frakklandi, nett öfund í gangi hjá litla bróður.

Síðan buðu Anna Lára og Höddi í bolluveislu í gær. Það verður að halda fast í íslensku hefðinar þó svo maður sé staddur í öðru landi. Bollurnar sviku engann og voru mjög góðar.

Þessa vika fer örugglega mest í það að taka það rólega og halda áfram að æfa og læra. Meistaradeildarvika og skemmtilegheit.

Að lokum. Ég kastaði inn myndum á myndasíðuna mína. Þær eru allar mjög slæmar og vekja upp í mér nettan kjánahroll, sem betur fer get ég ritskoðað myndirnar áður en ég kasta þeim inn. En um að gera að skoða þær. Oddur tók fleiri myndir sem þið getið skoðað hér.

Ég vil bara enda með því að þakka Oddi og Himma, og jú öllum hinum líka, fyrir frábæra helgi.

Leiter

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Mittpláss á myspace

Ég gleymdi alltaf að segja frá því hverju ég lofaði Pétri Einars þegar hann flutt aftur heim. En það var að stofna myspace aðgang. Ég efndi loforðið er núna orðinn einn af mörgum notendum minnspláss. Með þessu var ég líka að fullkomna mitt rafræn líf. Ég vil líka kenna einmitt myspace um það hversu latur ég var við það að blogga. Það einhvern veginn átt minn tíma og það var aldrei tími fyrir að blogga. Síðuna mína má sjá hér og ætli ég hendi ekki líka í einn tengil á síðuna. Ef þið þekkið mig og eruð með aðgang megið þið alveg spurja hvort ég vilji ekki vera vinur ykkar, ég hef allavega einkum neitað enn.

Ég fór upp á Alþjóðaskrifstofu Kaupmannahafnarháskóla í dag því ég þurfti að fá undirskrift á eitthvað plagg um að ég væri í skóla fyrir kollegið mitt. Þar komst ég að því að ég náði báðum þessum ritgerðum sem ég skilaði inn fyrir áramót. Það gladdi mitt fátæka námsmannshjarta, því þá þarf ég allavega ekki borga LÍN þetta strax heldur bara með vöxtum og alla ævi.

Hilmar Guðjónsson lendir í Kaupmannahöfn á morgunn til að heimsækja vin sinn Odd. Ég vona að þeir hafi gert sér það fullkomlega ljóst að ég ætla að vera uppáþrengjandi gaurinn um helgina. Ef ég þekki þá rétt verður þetta heljarinnar helgi. Planið sett á Carlsberg verksmiðjuna, kollegibarinn og Bjórkvöld FC Guðrúnar.

Ég hef verið hrikalega slakur við það að taka myndir frá því ég kom hingað aftur en ég reyni að munda kubbinn um helgina og þá í framhaldinu leyfi ykkur að njóta afrakstursins.

Sæl að sinni

mánudagur, febrúar 12, 2007

Bloggleysi

Afsakið þetta bloggleysi. Ég hef einhvern ekki náð að koma mér í það að sitjast niður og pikka inn eitthvað sannleikskorn um mitt líf. Það er svo langt síðan að ég bloggaði að Ísland var enn í séns í HM þá. Ekki það að ég vilji rifja upp helvítis danaleikinn aftur. Við fórum niður á barinn til þess að drekka sorgum okkar það kvöld. Það var ekki hægt. “Vi er hvide, vi er røde” var spilað oft í gegn það kvöld. Okkur, skiljanlega, til mikils ama. Ef maður hefði ekki verið búinn að fjárfesta í bjór þá hefði maður gengið út og mótmælt. Elska ég bjór meira en mitt eigið þjóðarstolt?

Þar síðustu helgi hélt Pétur Már upp á afmælið sitt með litlu spilakveldi í Rødovre. Þangað var farið og skemmt sér í póker. Komst í bæði skiptin í úrslitin en tapaði þeim báðum, ég vil samt trúa að þetta fari batnandi. Við tókum S-tog á leiðinni heim um hálf-eitt. Á leiðinni koma tveir gaurar inn og setjast á básinn við hliðiná okkur. Þeir geta ekki hafa verið eldri en 18 ára. Þeir taka upp 100 krónu seðill, krítarkort og hvítt efni. Svo sjúga þeir í nös. Ég tel það góðan hlut að mér hafi brugðið eins og mér gerði. Ég þurfti bókstaflega að ná í hökuna mína frá gólfinu. Svona er greinilega þetta stórbæjar líf. Maður þarf að venjast því að það er notað kókaín í almenningssamgöngutækjum. Vá, ég hljóma alveg eins Víkverji í mogganum. En öngvu síður var þetta frekar spes lífsreynsla.

Á miðvikudaginn kom Pétur afmælisbarn og Siggar systir hans á kollegibarinn. Það var fínt kvöld og mikið rætt. Endaði ég í hörðum umræðum um veldi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, mér líkar ekki einu sinni við Garðabæ. Á föstudaginn hjálpaði ég Hallgrími syni Önnu og Adda, vinahjóna mömmu og pabba, að flytja í stórglæsilega íbúð á Islandsbrygge. Eftir að hafa burðast með hjónarúmið upp 8 hæðir endaði kvöldið með bjór, pítsu og SingStar. Ég hef aldrei þótt góður í SingStar, aðallega þar sem ég er bæði falskur og laglaus, eitthvað sem þykir ekki gott í söngbransanum. Þó vann ég þarna minn fyrsta sigur í SingStar og þann eina hingað til. Þegar leið á kvöldið var farið í keppni milli kynjanna og komu í ljós miklir yfirburðir kvennanna. Dróg ég lið mitt verulega niður.

Á laugardaginn skrapp ég til Malmø í Svíþjóð með Guðrúnu og Önnu. Fyrsta skipti þar sem ég hef komið þangað og get ég alveg mælt með Malmø. Við gengum upp og niður helstu verslunargötuna, stelpurnar versluðu og ég sá um að líta vel út, því engan átti ég aurinn til eyða. Um kvöldið var mér svo boðið í mat til Hödda og Önnu Láru í hamborgarahrygg og vil ég hér með nota tækifærið og þakka fyrir mig. Svo var haldið í rall á barnum fram á rauða nótt.

Skólinn er farinn á fullt og það er gott að fá ástæðu til þess að vakna á morgnanna. Upplýsingar um kúrsana mína má lesa hér . Ég tek fyrstu tvo, en því miður byrjar ekki annar fyrr en í apríl. Býst ekki við að neinn skoði þessa kúrsa nema Pálmar. Svo Pálmar þessi linkur er algerlega tileinkaður þér. Ég vona svo að þér gangi vel að vinna þig út úr sorginni sem þú varst í um daginn. Afsakið þetta innslag, en svo ég haldi áfram þá ég tek með einn kúrs um danskar kvikmyndir með, meira til þess að hafa eitthvað að gera. Svo prófaði ég einn kúrs sem fjallar um íslam en hann er í annarri deild og eitthvað vesen að fá hann metin, en ég ætla að mæta í hann þangað til í apríl.

Ég fékk gefins hillu frá Hallgrími og Ástu sem þau ætluðu ekki með í nýju íbúðina. Hún setur held ég punktinn yfir i-ið í C-104. Fötin sem voru röðuð út um alla íbúð eru nú vel brotin saman í hillunni mér til mikillar ánægju. Í tilefni hillunar var tekið til í C-104 og vil ég meina að þetta sé núna hreinasta íbúðin á þessu kollegi.

Ég og Oddur erum byrjaðir að fara reglulega í ræktina sem er hérna í kolleginu. Þetta eru ekki alveg Laugar en aðstaðan þjónar hlutverki sínu vel. Fínt að fara og að hreyfa sig reglulega aftur, líkaminn batnar einnig með hverjum degi. Svo ég hlakka bara til sumarsins og að geta byrjað að hlaupa úti aftur á fullu.

Þessi pistill var svona langur því ég hafði ekki skrifað lengi. Afsakið það.

Kveðja frá C-104.