mánudagur, nóvember 27, 2006

Fjölskyldan á Selbraut 12 varð fjölskyldan á C-104

Helgin er búin að líða fáránlega fljótt. Það er búið að vera æðislegt að hafa fjölskylduna hérna alla hjá sér og var ég búinn að sakna þeirra allra mikið. Eini gallinn var að það var fullt þröngt á þingi hér í C-104.

Fríða náði að bregða mömmu og pabba hressilega þegar hún opnaði hurðina á íbúðinni minni og tók á móti þeim. En þau vissu ekkert að komu hennar. Það voru svo sannarlega fagnaðarfundir. Þegar við vorum ekki að hygge okkur hjá mér vorum við á Strikinu. Mamma og pabbi náðu að versla fullt en ég og Fríða vorum ögn rólegri í tíðinni. Ég náði þó að sníkja nokkra hluti og setja á kreditkortið hjá pabba. Fékk svo afmælisgjöf bæði frá foreldum mínum og Fríðu, settið gaf mér skó og Fríða flotta húfu. Við kíktum í julefrokost á Det Lille Apotek sem er elsti veitingastaðurinn í Kaupmannahöfn og við systkinin skelltum okkur í jólatívolí. Eftir það er ég ekki frá því að ég sé kominn í smá jólaskap sem er hálfgert guðlast hjá mér þar sem venjulega byrja ég ekki að hlakka til fyrr en eftir afmælið mitt. En ég sem reglurnar svo ég hlýt að mega brjóta þær. Fríða flaug svo til London í kvöld og mamma og pabbi fljúga heim á morgunn.

Á laugardagskvöldið gerðist ég frábær gestgjafi og skildi fjölskylduna eftir og fór út á djammið (er samt löglega afsakaður því þau voru öll búin að vera vakandi í næstum heilan sólarhring og því ekki í partýstuði). Því sama kvöld fór fram árshátið IF Guðrúnar. Var það mikil og skrautleg hátíð, svona ein með öllu. Oddur tók heim verðlaunin Bjartasta voninn og er vel að þeim verðlaunum kominn strákurinn, tilykke Oddur minn. Eftir góðan mat og gott session á Pilegarden enduðum ég, Oddur, Kristín, Dagur og Tine á einhvejrum breskum pub þar sem þessi "eini bjór of mikið" var drukkinn. En þetta var hörkustuð og strákarnir í Guðrúnu eru eins og fyrr segir algjörir snillingar.

Kastaði inn myndum á myndasíðuna mína. Þó ekkert of mörgum enda var ég latur á vélinni um helgina.

En gestatörnið er rétt byrja því Hildur og Beta lenda hér á morgun og svo kemur Bjarmi á fimmtudaginn. Ég hlakka til.

Fjölskyldan á C-104 kveður.

laugardagur, nóvember 25, 2006

Leyndó

Psst... ekki segja mömmu og pabba en Fríða systir er líka Köben.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Niðurtalning

Sjitturinn, titturinn, mellan og hóran. Afsakið helvítis orðbragðið. Ég er bara svo spenntur að ég get ekki orða bundist. Ég er jafnvel spenntari en drottningin rétt áður að hún kveikir í fyrstu sígarettu dagsins. En þannig er með mál með vexti að nú styttist í heimsóknatörn. Mamma og pabbi mæta á svæðið á laugar- eða sunnudaginn og fara á miðvikudaginn, svo koma Hildur og Beta á þriðjudaginn og að lokum, síðastur en alls ekki sístur, kemur Bjarmi á fimmtudaginn. Þetta verður mega ljúft prógram.

Yfir í ögn í leiðinlegri fréttir. Nárinn er enn í messi (þó ekki Leo). Núna er hann byrjaður að toga í bakið mitt og gefa mér verki þar. Skynsamur maður mundi hætta að elta bolta út um allt og stunda útihlaup. En ég er ekki skynsamur maður. En það er orðið ljóst að ég þarf að reyna að komast í aðra aðgerð til að fá bót á mínum meinum. Ef það er eitthvað verri en nárinn þá er það hárið mitt. Það heldur bara endalaust áfram að vaxa og ég er löngu hættur að ráða við það. Og af einhverri ástæðu, sem er mér gjörsamlega ókunn, þá fara Íslendingar ekki í klippingu í útlöndum. Allir bíða þangað til þeir koma heim og taka klilluna þar. Þetta er einhver óbrjótanlega regla sem ég verð að fylgja. Svo ég er byrjaður að telja niður dagana þangað til ég fer í klippingu í staðinn fyrir telja niður í heimkomu. Þangað til geng ég með húfu.

Annars er ég búinn að vera með átak í eldhúsinu. Ég bauð Pétri Einars í mat í gær og bauð honum upp á kjúklinga faitjas sem var það gott að ég trúði varla að ég hefði gert það sjálfur. Síðan horfðum við á nýjasta Prison Break sem Pétur lifði sig svo mikið inní að hann var byrjaður að berja í mig í endann. Klassa miðvikudagskvöld þar á ferð.

Best að ég fari að læra núna því ég er ekki að fara að gera það í næstu viku og það styttist í ritgerðaskil.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Topp 5

…við Danmörku á þessu mómenti

1. Oddur, Kristín, Pétur, Pétur Már, Höddi og Anna Lára
2. Að fá vini og fjölskyldu í heimsókn
3. Amager Khebab
4. IFG Guðrún
5. C-104

jafnt í 6. sæti: verðlagið, veðrið, Skepnan, Tuborg Julebryg, Massimo, samgöngukerfið, Morten og Mike (kennararnir mínir), að geta notað orðið flødeskum í alvöru setningu, pulsubarirnir, H&M og FCK.

laugardagur, nóvember 18, 2006

Urður, Verðandi og Skuld

Urður
• Orri og Gaggi flognir heim. Djöfull var gaman að fá þá í heimsókn!
• Fyrirlestur í Spain in the Middle Ages
• Rall í gær með Oddi, Pétri og Ragga Clausen, sem er í heimsókn í höfuðstaðnum

Verðandi
• Þessi færsla
• Sideways sjónvarpinu
• God´s Gonna Cut You Down með Johnny Cash í eyrunum
• Fikt í nýju myndaalbúmi enda er Fotki búinn að vera fokka mér upp

Skuld
• 25 bls ritgerð um El Cid í Spain in the Middle Ages
• 15 bls ritgerð um óákveðið efni í Nordic Mythology
• Kasta inn myndum af íbúðinni
• Hildur og Beta 28. nóv
• Bjarmi 30. nóv
• Heimferð á milli 21-23. des

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Then there were two…

Jájá, Garðar er floginn heim og erum við Orri tveir eftir í C-104. En Orri flýgur heim á miðvikudaginn.

Dagskráin sem ég var búinn að plana fyrir strákana heppnaðist svona líka vel. Ég var búinn að kasta inn en myndum af Parken og eins og sést skemmtum við okkur ótrúlega vel. Við kíktum á Strikið, Fields og Fisketorvet. Strákarnir versluðu eitthvað, en fátæki námsmaðurinn gaf ókeypis tískuráð og lóðsaði túristana um borgina. Á fimmtudaginn tók félagi okkar Borat á móti okkur í Paldas bíóinu við Axeltorv og hélt okkur hlæjandi í 90 mínútur.

Á laugardagskvöldið var farið á kollegibarinn. Endaði það þannig að þar voru mættir hvorki fleiri né færri níu fyrverandi Valhýsingar. Þar voru Ég, Gaggi, Orri, Oddur, Pétur, Pétur Már, Stebbi Reykjalín, Dagur og Dabbi Halldór, en Stebbi var í heimsókn hjá þeim tveim síðast nefndum. Afleiðing þessa hittings var frekar slæm þynnka. Var þá ákveðið að sleppa heimsókn til orsaka þynnkunnar s.s. Carlsberg verksmiðjuna. Í staðinn var gengið yfir til hippa nágranna minna í Christaníu. En þar var ég að leika japanskan túrista og mynda allt í kringum mig. Smelli af einni mynd og þá gengur einn vígalegur félagi að mér og spyr hvort hann fái ekki að sjá myndina. Svo ég góðfúslega sýni honum hana. Þegar hann komst að því að ég hafði ekki verið að mynda hann þá sagði hann mér að það væri stranglega bannað að taka myndir af fólki í Christaníu og bað mig um að láta vélina niður. Náði félaginn að hræða mig svo mikið að ég tók ekki fleiri myndir þann daginn.

Eftir átök síðustu dag ákváðum ég og Orri að eyða deginum í dag í að taka það rólega og horfa á enska boltann. Reyndar voru Höddi og Anna Lára voru svo elskuleg að bjóða okkur í pönnsur svo við fórum við yfir og slátruðum myndarlegum bunka af pönnsum. Síðan er planið að fara til Malmö á morgunn og tjekka á þeim sænsku.

Ég fékk gott símtal frá Bjarma félaga í gær. En þannig er mál með vexti Hildur og Beta bekkjarsystur úr Kvennó ætla að kíkja til mín fyrstu helgina í des og var Bjarmi að spurja hvort hann væri ekki velkomin með. Ég hélt nú það, enda rauðhærðir alltaf velkomnir á mitt heimili. Svo nú er maður byrjaður að telja niður dagana í næstu heimsókn og þessi ekki einu sinni búinn. Þetta er ljúft líf.

Meira var það ekki að sinni. Hej hej.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Ragnheiði Elínu í 4 sæti!

Eins og ég var búinn að koma inná áður er prófkjör Sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi á morgunn.

Meðal þeirra sem eru að bjóða sig fram er stórfrænka mín, hún Ragnheiður Elín. En fyrir þá sem vita það ekki þá er hún systir mömmu, svo hún er með góð gen. En það er ekki allt því stelpan er einnig þrælmenntuð. Hún er stúdent úr Kvennó, eftir það lá leiðin í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og svo í masterinn í Georgtown University. Undanfarin níu ár hefur hún verið aðstoðarmaður Geirs H. Haarde forsetisráðherra og fylgt honum á milli ráðuneyta. Þannig að hún ætti að vera búin að gera sér grein fyrir hvað það er að vera þingmaður. Með þessa reynslu á bakinu ákvað hún að bjóða sig fram í prófkjörið. Ef þið viljið vita meira kíkið þá inn á ragnheidurelin.is.



Ég hef alltaf litið mikið upp til Röggu frænku. Hún er klár, góð, ákveðin og vel menntuð og það eru kostir sem einkenna góðan þingmann. Hún hefur alltaf verið til staðar fyrir mig og reynst mér vel, meðal annars með því að fara yfir ótal ritgerðir. Hún studdi mig í því að fara í Kvennó og í skiptinám og það eru ákvarðanir sem ég sé ekki eftir. Ég hvet því alla til að setja Ragnheiði Elínu í 4. sæti


Svona á seðillinn að líta út.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Super FCK

Vi er, Vi er, Vi er, Vi er Super FCK!


Loksins styðjum við félagarnir sama lið!

Myndir frá leiknum á myndasíðunni.

P.S. Leikurinn endaði 3-1 fyrir FCK

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Bakkabræður sameinaðir

Ég vil byrja á því að gefa massa shout out til Pabba. Um helgina hljóp hann eitt stykki maraþon í New York og lauk því á 4:22:03, sem er flottur tími. Ég hef verið að monta mig af mínu hálf maraþoni sem ég hljóp í sumar, fer þá bara ekki kallinn og gerir helmingi betur, meira en helmingri eldri. Mér finnst hann vera að senda mér skýr skilboð að hann sé helmingi betri en ég og er lítið annað gera í stöðunni en að samþykkja það. Ég vonandi næ að jafna kallinn einhvern tímann

Á föstudaginn kom Tuborg Julebryg út hér í Danmörku. Allir bjórdrykkjumenn þekkja þennan drykk enda einstaklega góður löður sem er einungis seldur í kringum jólin. Það er alltaf rosa hátíð um allt Danaveldi þegar hann kemur út og það má ekki byrja að selja hann fyrr en 20:59, fyrsta föstudag í nóvember. Crewið fór niður í bæ og kíkti á stemminguna. Myndir af atburðum má nálgast á myndasíðunni hans Odds en vélin mína ákvað að vera batterílaus eftir fyrstu mynd kvöldsins. Ég ákvað þó að henda einni mynd inn hér.

Ég er þarna búinn að dæma árganginn og svipurinn segir allt um það hversu góður hann er.

Í gær lentu svo Gaggi og Orri í Kaupmannhöfn. Ég er búinn að bíða lengi eftir þessari heimsókn og það var alveg frábært að sjá strákana. Þeir verða hérna hjá mér í um það bil viku. Er planið að kíkja á FCK-Elfsborg á Parken á morgunn, fara í heimsókn í Carlsberg verksmiðjuna, fara í biffen og sjá Borat, kíkja á Strikið, Fields og Fisketorvet og Bakkabræðrast eitthvað. Það voru ekki liðnir 5 tímar frá því þeir lentu að PES6 var kominn í gang heima. Það segir eitthvað um hversu eðlileg þessi heimsókn verður.

Aftur að námsbókunum. Seinna.

föstudagur, nóvember 03, 2006

15 mínútur af frægð

Í fyrsta Danish Culture tímanum mínum var verið að fræða okkur um bókmenntaarf Dana. Kennarinn fræddi 150 námsþyrsta nemendur um víkingana á Íslandi sem skrifuðu niður sögur sínar og trúabrögð. Hann nauðgar íslenskri tungu með að telja upp verk Snorra Sturlusonar (þó ekki íþróttafréttamannsins), Eddukvæðin og Íslendingasögurnar með hræðilegum dönskum hreim. Með hjálp nútímatækni blastar hann einu Eddukvæði upp á töflu. Síðan snýr hann sér að bekknum sposkur á svip og spyr eftir Íslending í hópnum. Ég lít vandræðilega í kringum mig í von um að sjá einhverjar hendur á lofti. Miðað við fjölda Íslendinga sem stunda nám í Kaupmannahöfn býst ég allavega við að sjá nokkrar hendur fara á loft en ekkert gerist. Að lokum rétti ég mína upp. Spyr kennarinn þá hvort ég vilji ekki heiðra bekkinn með því að lesa upp ljóðið, það væri bara ekki það sama ef hann mundi flytja það. Ég virði fyrir mig ljóðið sem lítur illskiljanlega út og meikar ekki mikið sens í fljótu bragði. Með 300 augu á þér og pressu frá kennaranum er frekar erfitt að segja bara pent nei og setjast niður. Svo ég tók eina sekúndu í að undirbúa mig og fer svo með ljóðið. Eftir flutinginn mátti heyra saumnál detta í salnum. Ég lít í kringum mig og þá annað hvort starir fólk á mig eða bendir, ef ekki bæði. Síðan brjótast út þessi líka fagnaðarlæti sem eiga bara heima eftir ótrúleg væmið atriði í lélegri Hollywood mynd. Svo hélt tíminn áfram.

En ég á eftir að muna eftir þessu ótrúlega fyndna og súrrelíska mómenti í nokkurn tíma. Og nú þegar ég kynni mig fyrir einhverjum sem er með mér í þessum tíma og segist vera frá Íslandi er alltaf spurt hvort ég sé gaurinn sem fór með ljóðið, og svo er ég beðinn um að segja eitthvað á íslensku.

Þessi smásaga úr mínu lífi er í boði föstudagsins 3. nóvembers. Góða helgi.

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Fréttir, atburðir, árás og kosningaslagur

Þrátt fyrir loforð í seinustu færslu verð ég að spara sleggjuna þangað til seinna. Því af mér er mest lítið að frétta. Náði mér í kvef um helgina og er búinn að vera veikur heima síðan. Þessar námsferðir fóru illa með mig. Það var samt gaman í þeim báðum og ég tók smá af myndum sem verður hent inn við tækifæri.

Það er samt ekki furða að maður sé að verða veikur hérna. Í nótt var stormur og í dag byrjaði að snjóa, fyrir utan að það er orðið skítkalt úti. Stormurinn í nótt fór illa með hjólin og ruslatunnurnar sem lágu út um allt en þó sérstaklega með tréið í bakgarðinum.



FCK – Man.Utd. í kvöld, MTV hátíðin á morgunn, Tuborg Julebryg kemur út á föstudaginn og annar stórleikur FCK – Brondby á sunnudaginn. Allt að gerast hér í Kaupmannahöfn. Reyndar er ég ekki með miða á neinn af þessum atburðum en jólabjórinn er gefins fyrsta klukkutíman svo ég fæ allavega bjór.

Ég fór út að hlaupa um daginn sem er ekki frásögu færandi nema að ég náði því merka afreki að hlaupa á umferðaskilti. Það er orðið frekar dimmt hérna úti og það voru bara ljósastaurar hinu megin götunnar svo ég sá ekki mikið og allt í einu réðst bara skiltið á mig! Mér stórbrá en meiddi mig sem betur fer ekki mikið. En engu að síður var þetta mega fyndið og ég þakka fyrir að enginn hafi séð þetta.

Að lokum vil ég lýsa yfir stuðningi mínum við Ragnheiði Elínu sem sækist eftir 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Kraganum, nánar tiltekið Suðvestur kjördæmi, sem er einmitt kjördæmi Seltirninga. Ég hvet alla til að kíkja inn á ragnheidurelin.is og kíkja baráttumál hennar.

Jæja, ég er farinn að horfa á FCK – Man.Utd í sjónvarpinu, sem er bara alveg eins og að vera vellinum sjálfum. Já…

Later