þriðjudagur, október 30, 2007

Vetur konungur

Ég er byrjaður að þurfa nota ullarsokka, nefið mitt er orðið jafn rautt jólakúlu að lit og það kemur móða á gleraugun mín þegar ég kem inn úr kuldanum, svo ég minnist nú ekki á snjóinn...

...það er kominn vetur.

mánudagur, október 29, 2007

Í regnboga tímans

Núna síðastliðinn föstudag, nánar tiltekið 26. október, komu út tveir hlutir sem ég hef beðið eftir með nokkurri eftirvæntingu.

Fyrst ber að nefna Leopard nýjasta stýrikerfið í Mac Os X seríunni. En biðin eftir þessari uppfærslu hefur verið óvanalega löng. Stýrikerfið hefur verið að fá ágætis dóma þar sem ég hef lesið en því miður er ég ekki búinn að ná mér í það sjálfur. En það gerist eflaust von bráðar. Á meðan bíð ég eins og lítið barn eftir jólunum, því að fá nýtt stýrikerfi frá Apple er eins og fá nýja tölvu.

Hinn er PES 2008. Leikurinn lítur mjög vel út, en hefur verið að fá slæma dóma vegna hikst þegar hann spilast. Jafnvel þegar hann er spilaður PS3 sem tækjabúnaðslega á að vera kraftmest tölvan á markaðinum í dag. En nördanir í Konami eru á fullu að búa til plástur sem vonandi bætir þetta. Það er vonandi að þeir ná að laga þetta því það er varla hægt að byrja að bíða eftir nýjum PES í heilt ár þegar þessi er nýkominn út. Gæti þetta verið fyrst klikk PES-manna en hingað til? Ég hef hingað til verið mjög ánægður með alla PES leikina og fundist þeir mun skemmtilegri í spilun en FIFA, sem er þeirra helsti keppinautur. Það er ekkert annað í stöðunni en að bíða og sjá en ég neita því ekki að ég varð fyrir vonbrigðum.

Þessi færsla átti alltaf að koma út á föstudaginn samtímis útgáfu þessa hluta en ég lagðist í rúmið og eyddi helginni þar glápandi á enska boltann. Er þó staðinn úr rekkju og er aftur orðinn fílhraustur.

Fyrst ég er deila skoðun mínum á afþreyingahlutum þá vil ég endilega mæla með In Rainbows, nýjustu afurð Radiohead (varla hægt að kalla þetta disk þar sem það ekki búið að gefa diskinn út enn). Radiohead hefur eitthvað tak á mér því ég fíla allt sem þeir gefa út og þessi diskur er enginn undantekning. Afurðinn er mjög þægileg í hlustun og skemmtileg.

Svo vil ég líka mæla með Tímunum okkar, fyrsta disk Sprengjuhallarinnar. Þessi diskur er búinn að koma mér verulega á óvart. Langt síðan að eins góðir textar hafa komið út á gamla ylhýra. Ég hef líka alltaf gaman af diskum sem eru með þema, líkt og til dæmis Sgt. Peppers með Bítlunum og Graduation með Kanye West, finnst það oftast gera diskana mun hlustanlegri. Sem mér finnst mjög mikilvægt enda er ég mun meira fyrir að hlusta diska í heild heldur en playlista. Á Tímunum okkar er tíminn yrkisefnið og það er leyst mjög vel, get nánast fullyrt að mánuðirnir og árstíðarnar hafa aldrei verið þuldir jafn oft upp á íslenskum disk áður og finnst mér það vel gert.

Vonandi hjálpar þetta ykkur eitthvað. Meira var það ekki.

miðvikudagur, október 24, 2007

Topp 5

Við það að vera leikskólaleiðbeinandi:

1. Allir krakkarnir, eins ólík og þau eru
2. Ótakmörkuð faðmlög
3. Fjöruferðir
4. Gleðin við það að finna að það sem maður er að gera skiptir máli
5. Samkomur í salnum

Verst:

Launin
Hádegismaturinn



Ég í fjöruferð

sunnudagur, október 21, 2007

Stór og lítill

Lítið að gerast, lítið að spá og því lítið skrifað.

Er samt stórhuga.

þriðjudagur, október 09, 2007

Landslið Kataloníu

þessa grein inná Vísi.is og byrjaði að velta fyrir mér hugsanlegu landsliði Kataloníu. Hef lengi haft áhuga á svæðinu og knattspyrnuliðinum þar, þó aðallega Barcelona. Vegna gæða miðjumanna ákvað ég að láta liðið spila 4-3-3. Ekki slæmur mannskapur miðað við lítið svæði landfræðilega séð.

Reina
Oleguer - Puyol - Pique - Gabri
Iniesta - Xavi - Fabregas
Ivan de la Pena - Bojan Krkic - Luis Garcia

Er ég að gleyma einhverjum eða er til sterkara lið? Endilega deilið ykkar skoðun með mér.

föstudagur, október 05, 2007

Einn af stelpunum

Mér hefur verið tíðrætt mín nýja vinnan á blogginu síðkastið. Verður nú engin breyting á. Ætla þó aðeins að tækla málið frá nýrri hlið nú.

Það vita allir að meginþorri leikskólakennara saman stendur af kvennmönnum. En hingað til hef ég aðallega unnið mest megnis á vinnustöðum með óhefluðum karlmönnum. Svo þetta er ný reynsla fyrir mig. Umræðurnar á kaffistofunni eru það sem ég á í mestu erfileikum með að venjast. En ég reyni að sína lit og taka þátt eins mikið og ég get. En fjandinn hafi það, þegar umræðuefnin eru óléttur og appelsínuhúð þá er þetta einum of langt gengið. Þá fer ég bara frekar aftur að vinna.

Lýsi hér með eftir strákum til að vinna á leikskólum landsins. Ekki vegna þess krakkarnir þarfnast þeirra heldur vegna þess að ég geri það.

Haustfagnaður Mánabrekku í kvöld. Ég og um 20 konur. Sjáum hvort ég verði ekki búinn að stilla tíðahringinn minn eftir öllum hinum konunum í vinnunni eftir kveldið.

fimmtudagur, október 04, 2007

Myndir frá sumrinu

Þar sem sumarið er á enda runnið og skammdegið byrjað að þokast yfir mann er vel við hæfi að birta nokkra góðar myndir frá sumrinu til að ylja sér.

Fyrst kemur myndsyrpa með mér og Bjarma frá okkar ýmsu ævintýrum í sumar. Ódýr sólgleraugu eru þemað.


Á Hróaskeldu



Í bústaðinum hennar Hildar



Þjóðhátíð



Alabama



Og svo héðan og þaðan.


Þingvellir



Való 2000 Reunion



Gróttu 84 Reunion



Alabama

miðvikudagur, október 03, 2007

Almenn uppfærsla

Það sem ég var í svona löngu blogghléi er þá ekki rétt að ég uppfæri ykkur, lesendur mína, um hvað sé í gangi hjá mér núna. Er á fullu að klára sagnfræðina. Er þó einungis í tveim kúrsum, Lýðræði á 20. öld og Heimspekilegum forspjallsvísindum. Er svo að fara á stað með BA ritgerðina mína, fer og funda um hana í næstu viku með prófessurunum mínum. Ætla ég deili svo ekki ritgerðarefninu og vinnslu á henni vel með ykkur, svo vel að þið hættið að nenna að lesa síðuna.

Vinnan gengur vel og líkar mér hún vel. Það er mjög gaman að vinna með krökkum og eitt er víst, manni leiðist aldrei. Fór á námskeið ætlaði nýjum kennurum (komst einmitt þar að því að ég má kalla mig leikskólakennara) þar sem þriggja ára háskólanámi var reynt að setja inn í hausinn á okkur á 3 tímum. Kom út og mundi eina aðferð. Hin svokallaða já-aðferð. Hún felur í sér að hægt er að segja já við 99% allra spurninga sem maður fær eins lengi og maður skilyrðir vel svarið. Ætla mér að reyna að nýta þessa aðferð í daglegu lífi framvegis.

Er síðan hreyfa mig þessa dagana. Keypti kort í Þrekhúsinu og er þar að hamast á lóðunum. Málið er bara að mér finnst svo leiðinlegt að lyfta, enda oftast með því að fresta því að fara lyfta og fer frekar út að hlaupa eða hjóla.

Já, þetta er eiginlega þrenningin hjá mér þessa dagana. Læra, vinna og hreyfa mig.

Ekki meira að sinni. Leiter

þriðjudagur, október 02, 2007

Sweet home Alabama

Það þurfti ekkert að pína mig til að titla ferðasöguna með þessu nafni. Enda eina nafnið sem kemur til greina þegar ferðast er til Alabama.

Svo ég haldi áfram eða réttara sagt byrji. Ég og Bjarmi ákváðum fyrir hartnær 8 mánuðum síðar að heimsækja Tinnu til Alabama þetta haust og eins og sannir heiðursmenn stóðum við okkur skuldbindingu.

Við flugum út föstudaginn 14 september og komum heim aðfaranótt sunnudagsins 23. Flugið út var langt eða um 14 tíma ferðalag. Í seinna tengifluginu frá Boston-Atlanta var líka smá töf sökum þrumuskýa. Ég veit ekki með ykkur en ég er ekkert alltof graður í að sjá eldingar í flugvélagluggunum þegar ég staddur í þeim.

En þetta ferðalag var allt þess virði þegar við sáum hana elsku Tinnu okkar. Við fengum höfðinglegar móttökur og allan tíman var farið með okkur eins kónga. Ég þakka hér með Tinnu og sambýling hennar, henni Önnu Beggu, fyrir það. Kynntumst við líka David, kærasta Tinnu, sem reyndist vera þessi frábæri gaur sem tók okkur mjög vel og sá til þess að okkur leiddist aldrei.

Við fórum á leik í amerískum háskólafótbolta í Auburn, sem er borg í Alabama og í henni er einmitt þessi skóli, sem er samkvæmt mínum heimildum næsti stærsti háskóli fylkisins. Gríðarlegur áhugi er á háskólafótboltanum þarna úti og mættu til að mynda u.þ.b. 80.000 manns á þennan leik og mikil stemming. Til marks um áhugan söng Taylor Hicks, sigurvegari American Idol, í hálfleiknum undir öruggs undirspil lúðrasveit skólans. Sigurinn var þó ekki heimamanna að þessum sinni heldur fór Missipi State með sigur hólmi í þó ágætlega spennandi leik.

Tinna keppti einn leik á meðan dvöl okkar stóð. Ég og Bjarmi sátum á fremst bekk og sáum AUM leggja örugglega gestaliðið 5-2. Rétt er að minnast að Anna Begga skoraði tvö mörk í þessum leik og Tinna sá um vörnina að stakri prýði.

Þess á milli versluðum við, fórum í sólbað eða eyddum stundum okkar í almennt letilíf. Við versluðum í Montgomery sem er fjölmennasta borg fylkisins og fórum yfir til Georgia og heimsóttum Atlanta, þar var enn meira verslað og kíkt á Ólympíugarðinn sem var reistur af tilefni Ólympíuleikana 1996 sem fóru fram í borginni.

Ég fór í annað skiptið á ævinni í golf og batnaði leikur minn talsvert þegar leið á brautina. Geng þó ekki það langt að segja að ég sé góður.

Kíktum út á lífið. Fórum á rosalegan bandarískan háskólaskemmtistað. Staðurinn var nokkuð fyndinn í mínum augum. Til dæmis dönsuðu allir sama dansinn, þ.e., stelpurnar nudduðu rassinum upp að klofi dansfélaga síns sem iðulega svaraði í þeirri mynd að þykjast slá hann. Þrátt fyrir að kalla mig liðtækan á dansgólfinu þá ákvað ég að sleppa því að dansa að þessu sinni.

Við kvöddumst síðan með tárum á snemma á sunnudagsmorgninu. Millilentum aftur í Bostom og áttum nú nokkra tíma aflögu svo við fórum niður í bæ. Boston reyndist mjög falleg og sérlega hrein borg miðað við okkar fyrri áfangastaði í þessari ferð. Væri mjög gaman að fara aftur þangað og geta eytt þar meiri tíma.

Ég held að þetta telji upp megin atburðina. Er þó eflaust að gleyma einhverju. Þetta var samt æðisleg ferð og þakka ég enn og aftur Tinnu fyrir mig. Ég setti nokkrar myndir úr ferðinni hingað hingað.

Uppfærsla

Ákvað að uppfæra aðeins síðuna. Var búinn að fá leið á gamla útlitinu og þó sérstaklega Danebro sem blasti alltaf við.

Commenta kerfið fór upp og niður að þessum sökum. Sjáum hvort Haloscan commentakerfið detti inn eða hvort ég taki hreinilega ekki bara upp kerfið sem Blogger bíður upp, það hefur nefnilega batnað mikið að mínum dómi.

mánudagur, október 01, 2007

Nýir tímar - nokkurn veginn nýtt blogg

Eftir góða pásu frá bloggi ætla ég að reyna að koma mér aftur í gírinn. Kannski er þetta tilraun sem ekki mun ganga, það verður tíminn einn að skera úr.

Til þess að koma mér í gang lofa ég nýrri færslu dagleg næstu vikuna (þessi er ekki tekinn með). Ég held að það sé eina leiðin svo ég komi mér af stað. Eina sem er að veði í þessu loforði er mitt orð.

Endilega fylgist með.

Kveðja,

Gunnar Þorbergur